144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[18:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sá stjórnmálaflokkur sem ég tilheyri, Samfylkingin, hefur mótað sér stefnu í sjávarútvegi sem byggir á markaðslausnum, alveg eins og stjórnmálaflokkurinn Björt framtíð, þannig að ég og hv. þm. Róbert Marshall erum mjög á svipuðum blaðsíðupörtum í því efni. Jafnvel þó að maður sæi fyrir sér kerfi þar sem væri beitt uppboðum, eins og ég vildi gjarnan að væri gert til þess að dreifa aflaheimildum, er eigi að síður í því kerfi hægt að sjá fyrir sér, eins og í núverandi kerfi, svipaðar hamfarir og við höfum séð gerast. Skuggahliðar kerfisins eru þannig að einmitt vegna markaðar er hægt að sjá fyrir aðstæður þar sem í einu vetfangi eru kannski keyptar burtu eða fluttar burtu aflaheimildir í byggðarlagi sem hefur löngum stundum byggt á sjávarútvegi. Og jafnvel þótt menn vindi sér í það að byggja upp annars konar atvinnugreinar og atvinnu til þess að búa til störf á staðnum þá tekur það tíma. Reynslan sýnir að það hefur verið mjög erfitt, það er kannski hægt en það tekur tíma.

Þá er það spurningin: Hvernig á að bregðast við þegar slíkar aðstæður skapast? Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það sé fyllilega réttlætanlegt að hafa form, við getum kallað það byggðakvóta, þar sem hægt sé að grípa til til þess að brúa bilið á millum mjög þungbærrar nútíðar og yfir í einhverja framtíð. Spurning mín til hv. þingmanns, af því að ég var ekki algjörlega klár á því í hans ágætu ræðu áðan, er hvort hann telur að réttlætanlegt sé að byggja slíkt inn í kerfið eða hvort hann er á móti því. Og ef hann er með því hvaða form hann telur heppilegast, t.d. það form sem menn hafa tekið upp núna á síðustu tveimur árum og felst í að veita Byggðastofnun heimild til þess að úthluta sérstökum kvóta?