144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[19:07]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við þingsályktunartillögu um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla. Tillagan kom hér inn í þingið í gær og þurfti fyrst að fá atkvæðagreiðslu um afbrigði vegna þess að málið hefði átt að berast fyrir 1. apríl síðastliðinn, það kemur sem sagt rúmum tveimur mánuðum of seint, síðan þurfti aftur afbrigði til þess að taka það á dagskrá í dag. Þetta er svona dæmigert mál sem því miður hefur einhverra hluta vegna tafist í allri vinnunni í hv. ráðuneyti og óskir hæstv. forseta Alþingis um að mál kæmu hér fyrr inn hafa brugðist illilega hvað þetta mál varðar.

Hér er ekki um að ræða mjög flókið mál miðað við sjávarútvegsstefnuna undanfarin ár. Hér er verið að úthluta því sem dregið er frá heildarafla, en það er ákvæði um að aflahlutdeildum er úthlutað á skip og síðan er tekinn ákveðinn hluti af því og lagður í sameiginlega potta, eins og það hefur stundum verið kallað, og honum skipt niður til ákveðinna verkefna. Það varð sú breyting varðandi þessa úthlutun þegar menn voru að fjalla um þetta á síðasta ári ef ég man rétt, frekar en þar á undan, að það var tryggt að stefnan í þessum málum kæmi fram í þingsályktunartillögu og hún yrði lögð fyrir þingið. Þess vegna er mikilvægt að fá svona tillögu og fá tækifæri til þess að fjalla um hana og ræða hana, fá umsagnir og leiðbeiningar frá aðilum allt í kringum landið og leiðbeiningar um það hvernig best er að gera þetta. Nú skilst mér að þetta sé gert í svolitlum flýti og það þurfi jafnvel að koma með nýja þingsályktunartillögu strax í haust sem er auðvitað mikill galli. Það að hugsa stefnuna til lengri tíma er gríðarlega mikilvægt og við þurfum að taka slíkt vinnulag upp sem víðast þótt það gangi nú í þveröfuga átt í augnablikinu. En einmitt það að málið berst svona seint er tilfinnanlegt því nú hefur oft verið rætt um að óvissa í sambandi við sjávarútveg sé óþægileg og hafi áhrif á fjárfestingar, minnki áhuga á þeim og af hverju hafa menn þá ekki þetta í lagi? En ég ætla ekki að eyða meiri tíma í það. Þetta er mál sem við studdum að yrði tekið inn með afbrigðum einfaldlega vegna þess að það verður að afgreiða það. Kvótaárið hefst 1. september og það verður að ljúka þessu áður en kvótaárið hefst og það er mikilvægt að fá umfjöllun um málið. Ég ætla að vona að hv. atvinnuveganefnd fái tækifæri til þess að ræða það vel inni í nefnd.

Hér eru sem sagt ýmsar byggðaráðstafanir eins og ég kalla í þessu pottakerfi og félagslegar lausnir og er miðað við 5,3% af heildarafla. Þessi tala, 5,3%, er mjög umdeilanleg og það er líka fróðlegt að skoða hana í samhengi við það ef það verður enn og aftur aukning á kvóta, m.a. í þorski og jafnvel ef ýsan fer að koma sterkar inn aftur. Þá er spurning hvort það eigi að halda sig við þessa prósentu og hvaða áhrif það muni hafa á þær tölur sem hér eru lagðar fram þegar þessar aukningar koma inn í framtíðinni.

Það hefur orðið töluverð umræða í þessum sal, t.d. hjá síðasta ræðumanni og fleirum, hvernig eigi að bregðast við vandræðum í sambandi við kvóta í einstökum byggðum. Þar hefur komið þessi nýja lausn sem er að í stað almenns byggðakvóta, sem er skertur í þessum tillögum, sé fært inn í sameiginlega pott sem Byggðastofnun fær, þ.e. sérstakan byggðakvóta til að styrkja brothættar byggðir. Þar er kvóti upp á 1.200 tonn sem menn fá til ráðstöfunar, hann er sóttur í almenna byggðakvótann að hluta og skerðingar á rækju- og skelbótum.

Í umræðunni um það hvernig eigi að bregðast við vandamálum í einstökum byggðum þá hafa menn eiginlega ekki fundið neina viðunandi lausn og menn hafa verið í vandræðum með forkaupsrétt á kvóta, hann má ekki vera á kvótanum sjálfum, hann verður að vera á skipum, en ef kvótinn á skipinu er aðskilinn þá hefur sveitarfélagið enga vörn eins og mér sýnist vera að gerast í Vestmannaeyjum. Við höfum líka verið með þá tillögu í þinginu að þessar byggðir fái töluverðan hluta eða allt að 25% af veiðigjaldinu til þess að byggja upp og skapa fjölbreyttari atvinnu. En ég held að alveg sama hvaða hugmyndir við höfum hvað þetta varðar þá sé gríðarlega mikilvægt að styðja við sjávarútveg á þessum stöðum eftir sem áður. Þannig hefur strandveiðin, sem fær óbreytt magn í þessari tillögu, haft mikilvægu hlutverki að gegna við að skapa líf í höfnunum úti um land. Það er ákveðinn hópur sem er alinn upp við það að veiða fisk og hefur haft þau tækifæri í gegnum árin og það er mjög mikilvægt fyrir þennan hóp að eiga tækifæri til þess að fara til veiða og skila fiski að landi. Strandveiðarnar eru líka farnar að skipta verulegu máli á einstökum stöðum, t.d. staðir eins og Patreksfjörður sem hefur getað haldið frystihúsinu opnu yfir sumartímann vegna strandveiðanna.

Ég hefði viljað að strandveiðarnar væru auknar meira en hér er reiknað með. Einnig vegna umræðu um að það getur verið erfitt að sækja fiskinn á þeim dögum sem opnað er fyrir strandveiðina, þetta eru ólympískar veiðar í byrjun mánaðar, hefði ég viljað breyta fyrirkomulaginu þannig að ráðstafað væri til eins mánaðar og menn gætu þá ráðið hvenær þeir færu út til að sækja aflann. Flutt hafa verið frumvörp um það, m.a. af fyrrverandi hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur og fleirum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að skoða þau mál áfram.

Formið með sérstakan byggðakvóta eða byggðakvóta til brothættra byggða hefur líka falið í sér þá breytingu að úthlutað er til þriggja ára. Þar af leiðandi geta menn gert áætlanir og skoðað málið til lengri tíma en bara til ársins. Ég styð sem sagt að meginhluta þær breytingar sem hér koma fram þótt það þurfi að fara yfir einstök atriði og skoða skiptinguna. Ég hefði þó viljað sjá aukningu á þessum hlut samfara auknum aflaheimildum með batnandi lífríki í sjónum og stækkandi fiskstofnum.

Hér er fjallað um makrílinn og makríl til smábáta. Það er mjög forvitnilegt að skoða þessa þingsályktunartillögu í samhengi við frumvarpið sem kom inn um makríl vegna þess að þetta stangast hreinlega á. Hér er úthlutað með allt öðrum hætti en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þarna er verið að tala um 15 þús. tonn sem er góð aukning á smábátana. Það á að taka gjald en það liggur ekki fyrir hversu hátt það á að vera, einhverjar getgátur um að það taki mið af síldinni eða á það að vera bundið við veiðigjaldshugmyndina, 10 krónur, eða hvað annað? Þarna hefði náttúrlega verið miklu eðlilegra að menn hefðu blandað saman úthlutun á bátana og síðan 20%-viðbótinni sem fer til ráðuneytis og á að selja, og látið það fara á kvótaþing, jafnvel þótt menn mundu svæðisbinda það að einhverju leyti. Þá hefðu menn að minnsta kosti tækifæri til að sjá hvert verðið er.

Hér á að afgreiða ráðstafanir til smábáta í gegnum umsóknir til ráðuneytisins. Þær heimildir sem verða ónýttar í lokin verða síðan settar á markað eða boðnar til kaups, en það eru engar reglur, stendur ekkert um hvernig eigi að fara með það. Ég hefði viljað sjá að menn gerðu tilraunir með kvótaþingið sem hefur verið töluvert til umræðu og hefur verið býsna mikil sátt um þá hugmynd að það sé til opinber markaður sem taki inn aflaheimildir sem ekki eru nýttar og komi þeim aftur til þeirra sem vilja veiða þær á því verði sem þeir eru tilbúnir að borga fyrir það. En það er mikilvægt að það sé opinberi markaðurinn, ekki sé selt af smábátunum. Hér er til dæmis gert ráð fyrir því að veiðist ekki fiskur þá færist hann ekki, það megi ekki framselja hann yfir á aðra báta. Það mátti í hinum tillögunum. Þannig að þessu leyti er þessi tillaga miklu skárri og vonandi ávísun á að búið sé að kæfa þá hugmynd, hún sé andvana fædd, þ.e. tillagan um sex ára úthlutun og allar þær fáránlegu hugmyndir sem fylgdu henni.

Í heildina vil ég segja að Samfylkingin hefur ítrekað lagt fram tillögur um sjávarútvegsstefnu og þar hafa markaðslausnir að megingrunni verið lagðar til grundvallar. Það hefur nú oft borist í tal að svokölluð sáttanefnd hafi skilað ákveðnum hugmyndum um samninga, en ég minni á tillögu frá Samfylkingunni, plagg sem var unnið m.a. af þingmönnum Samfylkingarinnar á þeim tíma en fyrst og fremst Þorkatli Helgasyni og Jóni Steinssyni, um það hvernig markaðsumhverfi væri hægt að búa til. Sem betur eru fleiri og fleiri að sjá að það hefði verið skynsamlegt að skoða það. Auðvitað verður að setja ýmsar reglur í kringum það kerfi, en það er eina leiðin til þess að finna út hvað útgerðin þolir að borga fyrir aðgang að auðlindinni.