144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[20:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og minni á að 94,7% af aflaheimildum á Íslandsmiðum eru í óheftu markaðskerfi, eru í kerfi sem er á lokuðum innri markaði. Þeir sem hafa fengið úthlutað aflaheimildum geta verslað með þær; ekki fullkomlega að vild, en geta fengið umtalsverðan arð út úr því, arð sem ætti að umtalsverðu leyti að lenda hjá ríkinu, okkur sem saman myndum þetta ríki, en endar í vösum þeirra sem á grundvelli veiðireynslu og forréttinda hafa fengið þessu úthlutað endurgjaldslaust. Þetta lokar auðvitað atvinnugreininni, því að þeir sem síðan bjóða í þessar aflaheimildir greiða mjög hátt verð fyrir þær, enda er markaðurinn lítill, því að það er eingöngu ákveðið hlutfall aflaheimildanna sem lýtur þessum lögmálum. Ef þær væru þarna allar væri auðveldara fyrir aðila að komast inn í greinina.

Við gætum búið til miklu betra markaðskerfi þar sem allir væru undir sömu reglur settir og þar sem við, í krafti ríkisvaldsins, stjórnuðum þeim markaði.

En ég tók það líka fram í ræðu minni að ég er hlynnt því að hluti kerfisins, eins og kveðið er á um hér, lúti öðrum lögmálum. Markaðurinn á ekki að vera herra heldur þjónn og mikilvæg sjónarmið, önnur en arðsemi, kunna að þurfa að liggja til grundvallar við úthlutun á aflaheimildum.