144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[20:17]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Á síðasta kjörtímabili lá hér fyrir frumvarp um stjórn fiskveiða. Hluti af því var að setja aflaheimildir ríkisins á leigumarkað og stækka þann pott til að auka möguleika á nýliðun í greininni, sem er mjög erfið í dag og nær óaðgengileg, og er þá fyrst og fremst í gegnum strandveiðar eins og komið hefur fram.

Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns til þess að til verði leigupottur sem hægt verði að leigja og hann mundi vaxa og þá yrði einhver möguleiki til að komast inn í greinina. Ef allar aflaheimildir, nú eru það 94,7%, færu á uppboð mundi hv. þingmaður telja rétt að þar væri einhver flokkun varðandi stærð útgerða, hvort þetta væri eingöngu einn pottur, hvort skipta ætti landinu upp í einhver svæði miðað við smærri byggðarlög og stór og öflug svæði sem hafa mikinn uppsjávarfisk í dag og mikið umleikis; að það yrði einhver aðgreining þar varðandi uppboðið, einhverjar girðingar, eða hvort þetta yrði algjörlega óheft.

Ég tel rétt að skoða blandaða leið. En ef þetta er algjörlega opið og óheft þá sé ég ekki annað en þeir sem nú eru í þessum stóra potti, minni útgerðir og þær sem eru ekki eins fjársterkar, mundu fljótt verða undir í þeirri samkeppni sem þar yrði vegna þess að hinir stóru og sterku hafa mikið forskot varðandi aðgengi að fjármagni og eru stórir og öflugir fyrir í greininni.