144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[20:39]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Ég veit ekki hvort þetta samrýmist fjárveitingavaldinu en við getum í það minnsta sagt að þetta sé ekki góð fjárstjórn. Í ljósi þess að við erum að fjalla um ríkisfjármálaáætlun og opinber fjármál, sem er nýja frumvarpið um fjárreiður ríkisins snýst um, þá er alveg óhætt að segja að mikið hefur verið talað um fyrirsjáanleika og að allir eigi að geta séð nokkuð fram í tímann hvernig fjármunum verður varið, að það liggi ljóst fyrir. Það er óhætt að segja að svo er ekki miðað við það að ráðherra, eins og hér var sagt, geti verið með óútfylltan tékka — í hvað? Auðvitað er það ekki góð stjórnsýsla.

Það hlýtur að þurfa að koma fram með hvaða hætti ráðherrann hyggst nýta þessa fjármuni sem þarna skapast. Hvert er verðmætið, eins og hv. þingmaður velti upp? Um hvaða krónutölur erum við að tala? Það kemur ekki fram. Auðvitað gætu þeir sem eru afskaplega talnaglöggir og telja sig kunna sjávarútvegspólitíkina upp á tíu fingur eflaust slegið á fjárhæð. Ég get það ekki. Mér fyndist áhugavert ef það kæmi inn í umræðuna þannig að við gætum gert okkar í hugarlund hvort það kæmu fjármunir héðan. Yrði það skerðing á einhverju öðru ef þetta færi inn í byggðatengd verkefni? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að fara með þetta? Er þetta hrein viðbót við önnur byggðatengd verkefni eða er þetta hluti af því sem hann hyggst leggja til? Rennur þetta inn í sóknaráætlun, eins og hér var bent á, eða eitthvað annað?