144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[20:56]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir býr að langri reynslu af sjávarútvegi og talar hér af skyggnu mannviti svo ég kveði nú ekki fastar að orði.

Mér er hugleikið það sama og henni, þ.e. þessi sérkennilega staða sem kemur upp og við höfum séð gerast svo oft á síðustu áratugum þegar lífsbjörgin er nánast tekin af fólki á einni nóttu, þá á ég við þegar einhver sem er handhafi töluverðra aflaheimilda gefst upp eða ákveður að hætta, selur sig út og tekur inn þá eign sem hann á í krafti kvótans og fer. Við höfum dæmi um það, hv. þingmaður þekkir það betur en við því að verstu dæmin eru úr kjördæmi hennar, að slíkt gerist og eftir er byggðarlag í sárum. Ég vil að kerfið búi yfir einhvers konar ráðum til að geta veitt smyrsl til að líkna þær þrautir.

En það er ákveðin þverstæða í mínu viðhorfi. Ég er þeirrar skoðunar að hægt væri að reka kvótakerfið þannig að það haldi áfram að skila miklum arði í sennilega samkeppnishæfasta sjávarútvegi í heimi, en á hinn bóginn vil ég líka koma í veg fyrir að það geti gerst sem ég var að reifa hér áðan.

Nú vill svo til þó það hafi farið hljótt að ein af þeim breytingum sem hefur orðið á kerfinu síðustu árin er akkúrat byggðakvótinn sem núna er í höndum Byggðastofnunar. Um hann er farið öðrum höndum en byggðakvótann almennt. Þá rek ég mig aftur til upphafsins þegar við vorum hér upp úr 1990 að reyna að laga það sem voru verstu skavankarnir, þá var alvarlega til umræðu að tengja einhvern hluta aflaheimildanna við fiskvinnsluhús vegna þess að ekki er hægt að flytja þau á milli héraða. Ég spyr hv. þingmann, ekki bara út frá þessari þingsályktunartillögu sem við erum að ræða heldur almennt, er það kannski leiðin til að koma í veg (Forseti hringir.) fyrir að höggið ríði jafn bylmingsfast og sagan sýnir að það gerir stundum þegar kvótinn fer?