144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[21:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er svo sannarlega hlynnt því að auðlindaákvæði verði sett í stjórnarskrá. Það er forsenda þess að við getum tryggt að arðurinn af auðlindinni renni til þjóðarinnar og að þjóðin hafi umráðarétt yfir auðlindinni. Það er það sem mér finnst að þurfi að undirstrika, að forræðið sé á höndum þjóðarinnar. Ríkið er þá sá aðili sem fer með það forræði.

Ég tel ekki að eignarréttur hafi myndast. Þegar við vorum að skoða þessi mál á síðasta kjörtímabili fengum við lögfræðinga og hæstaréttarlögmenn til að skoða það. Í þeim álitum sem við fengum var það skýrt að ekki hefði myndast eignarréttur. Auðlindinni er úthlutað til árs í senn með hlutfalli af heildarafla í svokölluðu aflamarki.

Það hefur vissulega myndast atvinnuréttur en ekki eignarréttur. Þjóðin á auðlindina og við eigum að vera ófeimin við að tala á þeim nótum. Ef svo færi að það færi fyrir dómstóla og annað kæmi í ljós, er þá bara ekki eins gott að á það reyni? En ég tel að það sé sama hvað við gerum, sama hvernig við förum út úr núverandi kerfi — gerum breytingar á því eða gerbreytum því og byrjum algerlega upp á nýtt — þá sé mjög eðlilegt að einhver aðlögun sé í því gagnvart þeim sem fyrir eru í greininni. Ég hef verið sanngjörn í þeim viðhorfum að það sé eðlilegt að það sé einhver aðlögun.

En útgerðaraðilar í landinu eiga ekki þessa auðlind, þeir eiga ekkert eignarréttarlegt tilkall til hennar. Það er þjóðin sem á auðlindina og við þurfum að styrkja það með því að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem fyrst.