144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[21:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við erum stödd á sama stað, ég og hv. þingmaður, að telja að aukning í strandveiðihlutann geti skipt miklu máli fyrir þessi byggðarlög. Talandi um strandveiðar, ég heyrði í dag í strandveiðisjómanni frá Súðavík sem hafði farið á fyrsta degi strandveiðitímabilsins í júní á veiðar í hundleiðinlegu veðri vegna þess að menn eru að reyna að ná því sem til er. Það eru auðvitað mjög mismunandi veðursvæði innan sömu hólfa. Það getur verið allt annað veður á Breiðafirði en er fyrir utan norðanverða Vestfirði. Menn eru að keppast um þann hluta sem er í pottinum á hverju svæði. Ég hef talað fyrir því og fleiri að það eigi að skoða að festa ákveðinn dagafjölda innan hvers mánaðar.

Sumir hafa líka talað hér um óhagkvæmni strandveiða. Ég tel að við mundum slá tvær flugur í einu höggi með því að festa einhvern X fjölda daga. Það þyrftu ekkert að vera fleiri dagar en til dæmis tíu í hverjum mánuði. Menn hefðu þá frjálsar hendur að fara í góðu veðri, gætu farið eitthvað lengra út, sótt verðmætari afla og gætt fyllsta öryggis. Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns á þessum hugmyndum sem ég mun halda áfram að tala fyrir vegna þess að ég hef heyrt í fjölda strandveiðimanna sem eru hlynntir þeim. Ég þekki alveg mótrökin, að hætta sé á því að þá verði þetta kvótasett, en má ekki með sömu rökum segja að þá sé hægt, ef vilji stjórnvalda liggur til þess að kvótasetja, að horfa aftur í tímann, taka eitthvert meðaltal og deila upp fjölda báta og finna út (Forseti hringir.) eitthvert aflamagn á hvern bát og kvótasetja ef vilji er fyrir því? Ég er auðvitað alfarið á móti því að strandveiðar (Forseti hringir.) verði kvótasettar.