144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[21:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Ég held að það sé mikilvægt að byggðirnar njóti hluta í þessu. Ég held að það hafi verið jákvætt, þegar við settum strandveiðarnar á á síðasta kjörtímabili, að strandveiðigjaldið renni til hafnanna, það eru þá tekjur sem verða þar eftir. Mér finnst koma sterklega til greina að nota tekjur af makrílnum að hluta á svipaðan hátt til byggðanna og þá kannski helst í gegnum sóknaráætlanirnar.

Um leið held ég að almennt í auðlindamálunum — af því að það bar nú hér á góma hjá flokksfélaga hv. þingmanns fyrr í umræðunni, og sneri að orkuauðlindunum sem eru hér suðvestanlands og kannski ekki síst jarðhitanum — í gjaldtöku af auðlindum og útdeilingu á tekjum af þeirri gjaldtöku, sé mjög mikilvægt að gæta jafnræðis.

Ég hef alltaf litið svo á að hluti af sátt um auðlindasjóð, sem við höfum talað fyrir í Samfylkingunni fyrir Ísland, svipaðan og olíusjóðurinn er fyrir Norðmenn, hljóti að byggja á því að það sé ekki bara fiskveiðiauðlindin sem skili tekjum inn í hann, og landsbyggðin þá í ríkari mæli en höfuðborgarsvæðið, heldur komið það líka af hitaveitustarfseminni og öðrum auðlindum sem við eigum og bæði í innheimtu á auðlindarentu og í útdeilingu á þeim tekjum sé gætt jafnræðis milli byggðanna í landinu.