144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[22:20]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Mig langar aðeins að velta einu hér upp því að hún talaði aðeins um makrílinn. Eitt af því sem maður rekur augun í þegar maður les þetta og ég er ánægð með er að aflaheimildir í makríl fyrir 30 tonna báta og minni verði hægt að fá leigðar en ekki verði hægt að framselja þær. Á síðasta kjörtímabili settum við á fót 20 þúsund tonna leigupott ríkisins sem átti að stækka eftir auknum heildarafla.

Það sem vekur mann til umhugsunar núna er að í makrílfrumvarpinu svokallaða, sem við höfum rætt hér eina umferð, er í rauninni framsal leyfilegt. Það er ekkert annað en kvótasetning þegar talað er um að festa veiðiheimildir til sex ára og svo framlengist þær á hverju ári o.s.frv. Ég hefði að minnsta kosti viljað líta á það þannig. Mér finnst algerlega ótækt að þær séu kvótasettar.

En af því að hv. þingmaður talar svolítið um tilboðsleiðina þá hef ég haft örlítinn fyrirvara á henni og hef velt því aðeins upp hvort við getum farið blandaða leið. Ég hef áhyggjur af því að þeir sem eru litlir í greininni og jafnvel þeir sem eru nýir og ekki komnir með mjög styrkar stoðir geti því átt erfitt uppdráttar þegar þeir fara í samkeppni við hina stærri, ef við förum eingöngu uppboðsleiðina. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún fallist á að það geti verið heppilegt að fara einhvers konar blandaða leið en ekki bara eitthvert annaðhvort eða.