144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[22:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst í rauninni ekki þörf á því að fara blandaða leið en ég vil frekar fara blandaða leið en sleppa því að fara tilboðsleiðina. Ég held að tilboðsleiðin sé í rauninni eina leiðin sem getur kallað fram sátt um hvað þjóðin eigi að fá fyrir auðlindina. Tilboðsleiðin er best. Næstbest er að eitthvert hlutfall umfram auðlindarentu renni í ríkissjóð. Það sem er allra verst er að stjórnmálamenn ákveði verðið. Ég tek eftir því í lið nr. 8 í þessari þingsályktunartillögu að talað er um gjald fyrir makrílinn en það er ekki ákveðið. Ég held að þarna skapist tækifæri til að gera smátilraun með þennan litla bút af makrílkvótanum. Hins vegar er talað um verð fyrir sumarsíldina, 16 kr. Það er eitthvað þarna á bak við sem hv. atvinnuveganefnd þarf að fara betur yfir.

Kosturinn við að prófa tilboðsleiðina við makrílinn er að þar er ekki nein saga á bak við eins og á bak við þorskinn og fleiri fisktegundir. Ef við ætlum núna að gefa kvótann eða ákveða að stjórnmálamenn ákveði bara eitthvert veiðileyfagjald þá held ég að það sé mikið glapræði. Við eigum að spyrja útgerðina: Hvað eruð þið tilbúin til að borga? Við eigum auðvitað að fá sérfræðinga til að setja byggðagirðingar í tilboðsleiðir, jafnvel er möguleiki að setja nýliðunargirðingar. Það er líka möguleiki að taka tillit til sérstöðu smærri (Forseti hringir.) útgerða en nýta kosti tilboðsleiðarinnar til að ákveða arðinn (Forseti hringir.) sem þjóðin á að fá.