144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[22:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að öllum sé orðið ljóst, hvort sem þeir eru hlynntir kvótakerfi eða ekki, að ef strandveiðarnar eiga að lifa verður að halda þeim utan kvótakerfisins. Annars er þetta tæki til að opna á nýliðun orðið dautt.

Mig langar aðeins að heyra viðhorf hv. þingmanns til þessa mótvægis, 5,3%, í byggðalegar aðgerðir eða ráðstöfun aflamarks með öðrum hætti en aflamarkið er í hinum hlutanum, stóra pottinum, 94,7%. Telur hv. þingmaður þetta hlutfall nægjanlegt? Nú hefur verið togast á um það og nú eru verið að greiða af fleiri tegundum inn í þennan sameiginlega pott sem nýtist í þetta kerfi en telur hv. þingmaður að þá megi tengja hugsanlega strandveiðarnar, aflaaukninguna? Við sjáum fram á aflaaukningu í þorski. Mætti tengja það með einhverjum hætti beint þannig að strandveiðar fengju þá alltaf eitthvert hlutfall? Ég nefni 1–2% af þeirri aflaaukningu sem verður og þannig sveiflist potturinn til eða frá. Hann þyrfti auðvitað líka að taka á sig skerðingu ef við þyrftum að skera niður þorskkvóta á Íslandsmiðum. Væri rétt að gera það svona og efla þannig þennan pott, að hann nyti góðs af alveg eins og þeir sem eru í aflamarkskerfinu? Er þetta hlutfall, 5,3%, ekki of lítið? Í því frumvarpi sem var til umræðu á síðasta kjörtímabili og náði ekki afgreiðslu fyrir þinglok vorum við að tala um að það yrði stærri hlutur en 5,3% í þessar hliðarráðstafanir með samningum sem komu á móti til langs tíma.