144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[22:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þær hugmyndir sem ég var að nefna hér, svona enn ein í púkkið, þá held ég að með einhverri slíkri ráðstöfun innan mánaðar, að menn gætu geymt einn, tvo eða jafnvel fleiri daga lengra inn í mánuðinn ef ekki væri almennilegt sjóveður í byrjun, sé minnsta hættan tekin gagnvart öllum hugmyndum um að þar með séum við komnir með einhverja úthlutun. Þetta er bara það að þú ert í hópnum, það er pottur, og menn keppast við að fá sína hlutdeild í honum, en þú átt samt rétt til þess að tilkynna þig inn og segja: Ég treysti mér ekki á sjó núna, það er of rysjótt veður, ég vil fá að geyma minn dag. Og jafnvel þótt að ég verði að sætta mig við meðaltalsafla úr róðri í mánuðinum eða mánuðinum á undan þá vil ég það frekar en að berjast á sjó í vitlausu veðri. Þetta er algjörlega lágmarksröskun á fyrirkomulaginu að öðru leyti, gert upp innan mánaðarins og hefur ekki í sér neinn vanda gagnvart yfirfærslu milli mánaða eða neitt slíkt.

Varðandi það að setja 5,3%, allar hliðarráðstafanirnar í kerfinu, á markað, þá er ég um það bil eins 100% andvígur því og nokkur getur verið vegna þess að þessar félagslegu, byggðalegu, umhverfislegu ráðstafanir eru einmitt algjör andstaða þess að hugsa þetta út frá markaðslausnum. Þetta er pólitískur, skilgreindur stuðningur í tilteknu skyni, til að hlúa að veikum sjávarbyggðum, til að ná fram atvinnumarkmiðum eða byggðamarkmiðum og það er herra markaður ekki bestur í að leysa, það veit ég.

Hitt er allt annað mál að það er ekki ósanngjörn og ágæt hugsun, enda hefur hún oft verið á blaði, að einhver hluti teknanna sem af auðlindanýtingunni sprettur gangi til þróunarstarfs á svæðunum. Ég væri alveg til í að eyrnamerkja 5% af tekjum af veiðigjöldum í heild sóknaráætlunum landshlutanna. Þá væru þær komnar með myndarlegan tekjustofn og menn gætu farið að gera eitthvað í því verkefni. Það væri alveg eins hægt eins og að afla teknanna með sértækri leigu á(Forseti hringir.) veiðiheimildum, sem á hvort sem er að nota í annað.