144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég óttast það nú ekki að þótt við byggðum út svona fyrirkomulag um að menn gætu tilkynnt sig inn og geymt einhverja daga út af óveðri mundi það fara langt í áttina að því að þetta væri orðin einhvern veginn einstaklingsbundin úthlutun, því að menn yrðu að nýta sinn eigin geymda dag sjálfir. Munum eftir því hvernig strandveiðikerfið er uppbyggt og hugsað. Þetta er einyrkjakerfi, eigandinn verður að vera á bátnum, hver eigandi má aðeins tengjast útgerð eins strandveiðibáts og það er sótt í þennan sameiginlega pott innan hvers svæðis. Og þótt menn reru ekki fyrsta dag mánaðarins eða þriðja dag mánaðarins heldur biðu fram í næstu viku og tækju út þann róður á sjöunda eða átjánda degi mánaðarins skipti það ekki öllu, menn yrðu að nota hann innan mánaðarins o.s.frv.

Varðandi það að ganga lengra í að færa meira af þessum heimildum yfir til Byggðastofnunar eða í svipað byggðafestukerfi þá segi ég já. Ég held að það eigi að þróa kerfið í þá átt. Það er nú barasta alls ekki ný hugsun undir sólinni því að í sjávarútvegsstefnu Vinstri grænna hefur í langan, langan tíma, um árabil verið sú stefna að það eigi að bakka meiru af (Forseti hringir.) veiðiheimildurnum til byggðanna og tengja þær þar, byggðatengja meira af veiðiréttindum.