144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi í síðari ræðu sinni vítt og breitt um strandveiðikerfið, eins og gert hefur verið í dag af ýmsum öðrum þingmönnum þar sem rætt hefur verið um hvernig hægt er að koma til móts við þá sem eru á litlum bátum og geta ekki sótt veiðar eins stíft og þeir sem eru á stærri bátum. Mér skilst að þetta komi til meðal annars vegna dæmis sem gerðist í dag vestur á fjörðum þar sem menn fóru á litlum bátum út á eftir þeim stóru til að nýta dagana. Þetta var því ansi fróðleg, mikil og góð umræða um það sem hefur oft skotið upp kollinum og er rætt við okkur þingmenn, sérstaklega þingmenn landsbyggðarkjördæmanna, þegar verið er að ræða strandveiðar og sitt sýnist hverjum. En margt hefur fæðst í þeim umræðum manna á milli, þeirra sem vinna við greinina, strandveiðimannanna sjálfra. Þeir hafa oft á tíðum mjög margar og góðar hugmyndir um hvernig betra væri að útfæra þetta.

Eins og ég sagði áðan hef ég fylgst af athygli með þessari umræðu sem er um hvort hægt væri að úthluta einhvers konar dögum þar sem aðilar gætu nýtt sér að geyma daginn ef veður eru válynd, vegna þess að við megum ekki hafa þetta þannig, þessar ólympíuveiðar, að allir keppist við að fara út eins og er í dag, og við getum þakkað fyrir að engin slys hafa orðið.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í, og kem ég nú að sjálfri spurningunni sem er aðeins meiri útvíkkun á því atriði sem ég gerði hér að umtalsefni og mikið hefur verið rætt um í dag, eins og ég áður sagði, það er hvort við ættum að hugsa það, og hvernig hv. þingmaður sæi kosti og galla við það, að við byrjuðum ekki öll svæðin á sama tíma eins og er í dag, 1. júní, flaggað, allir hefja veiðar. Væri hugsanlegt að (Forseti hringir.) fyrsta svæðið byrjaði í dag og annað eftir fimm daga og svo koll af kolli? Væri það til bóta að mati þingmannsins?