144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrra atriðið held ég að fyrirkomulag með þessa geymdu daga, sem ég hef verið að velta fyrir mér, væri það einfaldasta og það sem er í raun bara minnsta lágmarksfrávikið frá gildandi reglum sem hafa sína kosti. Ég skoðaði heilmikið á árinu 2012 möguleikann á því að menn gætu valið á milli þess að keppa í pottinum og velja fastan dagafjölda innan mánaðar, kannski 4/5 af áætluðum fjölda daga á viðkomandi svæði í mánuðinum, menn hefðu eitthvert hagræði af því að geta þá valið virkilega góða veðurdaga til að róa og minni bátarnir mundu þá kannski gera það. Einhverjar slíkar leiðir eru vissulega færar en ég hallast að þeirri sem ég hef gert að umtalsefni í kvöld af því að hún hefur þessa miklu kosti að vera algjört lágmarksfrávik frá kerfinu.

Að menn byrji ekki allir á sama tíma, það er tvennt í því. Annars vegar skil ég alveg rökin fyrir því að hlaða ekki alltaf veiðinni fyrstu daga hvers mánaðar út af markaði og öðru slíku. Það er alveg rétt, það mætti alveg hugsa sér að þetta væri ekki bundið við sama upphafsdag á hverju svæði. En það er annað sem mætti náttúrlega líka skoða og það er að þetta byrjaði ekki endilega á sama tíma á árinu alls staðar. Við sjáum alveg hver þróunin er, að veiðin er mest á fyrri hluta tímans, í maí, júní, á vestursvæðinu, vestur- og norðvestursvæðinu, en svo meiri á seinni hluta sumarsins og haustsins á norður- og austursvæðinu. Kannski eru rökin þau að við gætum að hluta til leyst jöfnunarvandamálið, að í staðinn fyrir 1. maí byrjuðu menn ekki fyrr en 15. maí fyrir norðan og austan og þá væri þessu deilt að minnsta kosti í tvær blokkir sem töluðu svolítið saman, og þá stæði veiðin líka 15 dögum lengur inn á haustið á norðaustursvæðinu, og það er einfaldlega fiskigengdin, hún fellur mjög vel að því. Það er svona hálfur til einn mánuður sem í rauninni eru alveg efnisleg rök fyrir að byrja seinna fyrir norðan og austan með nákvæmlega sama hætti og landið er hólfað gagnvart grásleppuveiðunum, þær byrja fyrst á norðausturhorninu, síðast í Breiðafirðinum.