144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:09]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið, sem mér líkar vel að heyra. Þetta er kannski svolítið í takt við það sem ég var að spyrja um, útfærsluna á því að eitthvert svæði byrjaði 15. maí, þetta er í raun og veru svona af sama meiði, spurningin hvernig ætti að útfæra það.

Ég sagði á einum fundi um strandveiðarnar og nefndi það að allir mundu ekki byrja á sama tíma, einmitt út frá því sem hv. þingmaður sagði en ég sagði ekki og hafði ekki tíma til í ræðu minni, út frá markaðnum. Í dag hefur mikið farið inn á markað frá 600, 700, 800 strandveiðibátum, allt frá fyrsta degi og verður núna í nokkra daga, sem þýðir auðvitað að það verðfellur, sjómenn fá minna, útgerðarmennirnir fá minna fyrir sinn snúð, en það er eiginlega alltaf svoleiðis, og þá græða hinir meira sem kaupa, fiskverkendur o.s.frv. með því að fara þá leið sem ég var tala hér um.

Hitt atriðið sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í, (Forseti hringir.) ég veit að hann þekkir það vel, er um afkomu veiða og vinnslu sem Hagstofan gefur út hvað varðar litlu bátana, sem hefur verið gert svo mikið að umtalsefni að væru óarðbærar veiðar. Er það svo í raun og veru?