144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því hjá hv. þingmanni áðan að hann er hvað skeptískastur á markaðslausnir. Mér finnst alveg þess virði að íhuga viðhorf okkar til markaðslausna þegar kemur að kvótamálum almennt og fiskveiðistjórn. Eins og ég sé þetta þarf að vera einhver í menginu sem sér sér hag í því að verðmeta rétt, það er jú heila hugmyndin á bak við markaðinn eins og ég skil hann. Markaðurinn getur hins vegar verið arfalélegur í því að finna lausnir á hlutum eins og umhverfisvandamálum og þvíumlíku fyrir utan það að það er ekkert í markaðnum sem tryggir sanngirni.

Þegar kemur að kvótamálum almennt hefur mér sýnst að það séu í raun og veru tvö meginvandamál sem veki úlfúð út í kvótakerfið, ég sé ekki að það sé í grunninn það að það séu markaðslögmál í gangi, ekki í grundvallaratriðum, heldur er það tvennt. Það er annars vegar það hvernig staðið var að úthlutun upprunalega á seinni hluta 20. aldar, og síðan það hversu erfitt er fyrir nýliða að kaupa sig inn á markaðinn, og í raun og veru hefur þetta tilhneigingu til þess að staðna hvað varðar eignarhald.

Auðvitað hefur maður heyrt gagnrýni á þetta frjálsa framsal en það er sennilega sá hluti af kvótakerfinu sem mér finnst einhvern veginn — og ég bið hv. þingmann að leiðrétta mig ef ég hef rangt fyrir mér í þeim efnum — ekki valda ósanngirninni í sjálfu sér heldur úthlutunin og það að kerfið geri ekki ráð fyrir endurnýjun, eitthvað á borð við það sem Samfylkingin hefur stungið upp á hvað varðar fyrningarleið, sem vinnur í gegnum uppboð, hugmynd sem ég er persónulega mjög áhugasamur um, mér finnst hún rökrétt í fljótu bragði.

Ég velti svolítið fyrir mér hvernig hv. þingmaður sér sérstaklega hugmyndir Samfylkingarinnar í þessu samhengi, sem er markaðslausn með ýmsum fyrirvörum.