144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um það að markaðurinn er vissulega ekki góður húsbóndi, jafnvel ömurlegur húsbóndi. En það er, eins og hv. þingmaður segir, ágætt að nota markaðinn þar sem hann er brúklegur, og eins og ég sé þetta þá er markaðurinn fyrst og fremst til þess að finna út úr því hvert er rétt verð. Hugtakið rétt verð er svolítið rangnefni vegna þess að það er ekki til neitt rétt verð. Verð og verðmæti er afstætt og það er þess vegna sem það þarf einhverja náttúrulega dýnamik til að útkljá það hvers virði eitthvað sé. Til þess að mínu mati þarf einhvers konar markað, en ekki algjörlega óhindraðan markað, ekki markað sem við trúum á eins og einhvern guð heldur markað sem þjónar því tiltekna hlutverki að ákvarða verðið.

Þess vegna langar mig svolítið að heyra meira, og kannski þarf lengri ræðutíma til þess, um muninn á því að hafa leigumarkað sem ég geri ráð fyrir að væri þá með opinberu eignarhaldi í grunninn — hv. þingmaður leiðréttir mig ef það er rangt hjá mér; en leigumarkaðinn annars vegar og hins vegar einhvers konar uppboðsleið. (Forseti hringir.) Í fljótu bragði sýnist mér uppboðsleið miklu skynsamlegri leið en að fara að velta þessu á einhverja leigu.