144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:27]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann að reynast mjög erfitt fyrir mig að tjá mig um þetta síðasta sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir beindi til mín í andsvari sínu, þ.e. um skiptingu milli svæðanna og fjölda báta. Ef ég man rétt var það eins og það var gert í upphafi og það er þá komin reynsla á það, reynsla í fjögur heil fiskveiðiár. Síðan er það auðvitað það sem hefur verið að gerast á svæðunum. Hvers vegna fjölgar bátum á svæði A? Er það meðal annars vegna þess að aðilar á öðrum svæðum flytja báta sína þangað, taka þátt í veiðum þar vegna þess að þar eru kannski bestu veiðarnar, mesti aflinn, tekur fæsta daga að veiða hann o.s.frv? Þar getur svo blandast inn í veður. Í stuttu svari get ég því ekki úttalað mig um það hvernig þessi skipting er. En eins og ég sagði áðan er ákaflega athyglisvert og nauðsynlegt fyrir þingmenn þegar þeir fara niður á bryggju á útgerðarstöðum og ræða við karlana sem stunda veiðarnar og eru í þessu kerfi og hafa séð kosti og galla, að hlusta á þá og reyna að betrumbæta kerfið miðað við reynslu þeirra, en þeir búa oft og tíðum yfir bestu vitneskjunni um þetta. Þar á meðal er atriðið sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni í andsvari. Það verður líka að segjast að ég hef heyrt mest af þessu þegar ég fer í heimsókn vestur á firði.