144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:31]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður, sem á sæti með mér í atvinnuveganefnd, gerir að umtalsefni það sem fulltrúar frá fiskmörkuðum á Íslandi ræddu við okkur á fundi í atvinnuveganefnd um daginn. Það var ákaflega fróðlegt spjall þar sem þeir sögðu frá reynslu sinni og því sem er að gerast á mörkuðunum. Það má líkja því saman við það sem ég sagði áðan um það sem strandveiðisjómenn segja við okkur þingmenn um hverju þurfi að breyta og hvað þurfi að laga.

Þarna tjáðu fulltrúar frá fiskmörkuðum okkur skoðanir sínar og áhyggjur af því hvernig minna og minna fer inn á fiskmarkaðina, fer fram hjá þeim. Auðvitað blandast inn í þetta það sem við höfum heyrt frá aðilum um endurvigtun. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hef miklar áhyggjur af framtíðinni og þróun á fiskmörkuðum hvað varðar það að minna og minna fer þangað inn.

Ég hef líka áhyggjur af því og spyr sjálfan mig til hvers þurfi að hafa þetta endurvigtunarleyfi. Af hverju er ekki hægt að hafa það þannig að þegar bátur kemur að landi er annaðhvort vigtað á hafnarvoginni og það er það sem gefið er upp til Fiskistofu eða það sem fer í gegnum fiskmarkað eða jafnvel að fiskmarkaður reki hafnarvogina og það séu hinar opinberu tölur? Síðan er þetta vigtað og fer inn í fiskvinnslur sem eru með endurvigtunarleyfi og þar er það vigtað seinna og þannig hefur þetta áhrif koll af kolli. En sem svar þá deili ég sömu áhyggjum og hv. þingmaður af fiskmörkuðunum. Ég er þeirrar skoðunar að hið frábæra kerfi sem þeir eru með og það hvernig þetta er stundað og gert sé til eftirbreytni og að frekar ætti að efla það en gera eitthvað sem gerir það að verkum að minna og minna kemur inn.