144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu og eins og svo margar ræður fyrr í kvöld hefði hún að mínu mati gjarnan mátt vera lengri.

Hv. þingmaður fór aðeins inn á strandveiðarnar og nefndi að þær væru ekki svo arðbærar en samt mikilvægt mótvægi til að ná sátt um þetta kerfi. Ég er svolítið að velta fyrir mér varðandi strandveiðar hvort ekki sé skynsamlegast að gera þær einfaldlega frjálsar. Í fyrsta lagi þarf ekki að pæla í þessum svæðum og það mundi leysa að miklu leyti þau vandamál sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir talaði hér um.

Ég velti fyrir mér, sérstaklega með hliðsjón af því að þær eru ekki arðbærar, hvort það geti hreinlega verið vegna þess að þær eru ekki frjálsar, að menn þurfi að nota búnaðinn sinn og geti því ekki notað hann eins mikið og þeir gætu gert ef þær væru frjálsar. Hvort það að þær eru ekki arðbærar sé ekki hreinlega til marks um að það séu of miklar takmarkanir. Í öðru lagi, ef svo er ekki, ef þetta er ekki arðbært með frjálsum veiðum, gerir þá nokkuð til að strandveiðarnar verði gerðar frjálsar vegna þess að þær verða aldrei arðbærar? Væri þá nokkur hætta á því að menn mundu ganga svo langt að það yrði ofveiði? Síðast en ekki síst velti ég fyrir mér hvort hægt sé að finna einhvers konar jafnvægi á milli þessara tveggja punkta þannig að veiðarnar gætu orðið miklu frjálsari en um leið arðbærari með því að auka þær töluvert. Í fljótu bragði virðist það gilda einu hvort það væri gert með því að auka hlutdeildina sem strandveiðarnar fá úr litla potti — heitir hann það ekki? [Hlátur í þingsal.] — eða með því að gera þetta allt saman miklu frjálsara. Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmanni finnst um þessar vangaveltur.