144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir efnismikið og fræðandi svar og tek það sem gott og gilt. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann varðandi veiðigjöld og það sem hann sagði um að þau mættu ekki leiða til samþjöppunar. Ég get alveg tekið undir það. Ég hef alltaf séð veiðigjöld sem einhvers konar uppbót fyrir það að við höfum ekki búið til kerfi sem skilar því sem fólki finnst vera sanngjarn arður til þjóðarinnar af nýtingu auðlindarinnar. Þá velti ég fyrir mér hvort það sé í sjálfu sér einhver þörf á veiðigjöldum og þess konar lausnum ef farin væri leið eins og fyrningarleiðin eða sem sé þar sem ákveðinn hluti er settur á uppboð árlega. Þá væri markaðurinn nýttur til að finna rétta verðið og þá væri væntanlega auðveldara fyrir nýliða að komast inn í greinina, geri ég ráð fyrir, hv. þingmaður leiðréttir það kannski ef það er ekki réttur skilningur hjá mér. En sömuleiðis væri ákveðinn fyrirsjáanleiki svo lengi sem menn eru reiðubúnir til að borga það verð sem markaðurinn setur upp. Það hefur mér einhvern veginn fundist vera sanngjarnasta lausnin. Ég geri ráð fyrir að hún mundi skila umtalsverðum tekjum vegna þess að sá hluti markaðarins sem vill eiga kvótann, þótt það yrði auðvitað tímabundin eign, þyrfti alltaf að borga rétt markaðsverð. Þá sé ég ekki alveg hvernig veiðigjöld ættu að gera þóknunina til þjóðarinnar sanngjarnari eða nauðsynlega. Reyndar sýndist mér í fljótu bragði að hún mundi þvælast fyrir af þeim ástæðum sem hv. þingmaður nefndi, að það mundi hvetja til samþjöppunar. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé dæmi sem þurfi að vera „annaðhvort eða“ frekar en „hvort tveggja“, þ.e. bæði einhvers konar uppboðsfyrningarleið og einnig veiðigjöld.