144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:40]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður talar um veiðigjöld og uppboðsleið. Veiðigjöld eru þau gjöld sem er búið að setja á — nú man ég ekki almennilega hvenær almenna gjaldið var sett á í tíð sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Það var greitt í ákveðinn langan tíma og var hækkað úr 8 kr. í 9,50 kr. á síðasta kjörtímabili. Einu sinni var stór hluti af því felldur niður við mikinn samdrátt í aflaheimildum o.s.frv.

Það sem er verst við veiðigjöldin í dag er að nota sömu aðferð, reikna út frá meðaltali, þess vegna á 2–3 tonna trillu vestur á fjörðum eða hátísku nýjasta uppsjávarveiðiskipi Venus NS 150, sem gert er út frá Vopnafirði. Tekið er eitthvert meðaltal og það getur ekki gengið upp. Mér þótti merkilegt að heyra frá aðalfundi HB Granda þar sem stjórnarformaðurinn sagði að þeir væru bara sáttir við veiðigjöld sín. Margar stórútgerðir eru það, það er liður í því að reyna að skapa frið og festu. En þá er það spurning: Hvernig deilum við þessu út? Til dæmis munu veiðigjöld á næsta fiskveiðiári hækka, eins og verið er að ræða í atvinnuveganefnd. Sama aðferð er notuð og áður nema viðmiðunarárið er ekki lengur 2012 heldur 2013. Þá batnaði heildarafkoman hjá öllum veiðum og vinnslu talsvert og þess vegna hækka gjöldin.

Hvað varðar uppboðsleiðina, jú, það tala margir um þá leið. Hún væri auðvitað þannig að það væri ekkert veiðileyfagjald heldur færi bara ákveðinn hundraðshluti á uppboð og svo mundu menn að bjóða í líkt og gerist á fiskmörkuðum. Akkúrat. Þá er það hæsta verðið sem boðið er en það er ekki alltaf þar með sagt að það sé besta leiðin, til dæmis gagnvart því að miðla afla á milli svæða. Það getur alveg gerst að einhverjir ákveðnir landshlutar yrðu bara út undan og fengju ekki neitt. Það væri auðvitað mjög slæmt.