144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég sagði fyrr í dag við atkvæðagreiðslu að ég mundi sennilega kvarta undan þessu um ellefu- eða tólfleytið, einmitt vegna þess að á morgun er nefndarfundur í hv. allsherjar og menntamálanefnd og þar eru til umræðu höfundalög, sem eru ær og kýr okkar pírata. Það er mjög mikilvægt fyrir mig að komast þangað eftir að hafa fengið alla vega einhvern svefn. Að því sögðu skemmti ég mér konunglega yfir þeim umræðum sem við höfum átt hérna í kvöld og mér þykja samræðurnar mjög gagnlegar, en við þurfum að vita hvenær virðulegur forseti telur líklegt að hann ljúki fundi svo að við getum skipulagt okkur, til að mynda til þess að ég geti hringt í aðra hv. þingmenn Pírata og spurt þá hvort þeir geti tekið við keflinu á meðan ég fer heim og sef til að vera vel stemmdur fyrir fund í hv. allsherjar- og menntamálanefnd í fyrramálið.

Ég bið ekki um meira, virðulegur forseti, en að fá að vita það. Hér eru engar kröfur gerðar, ég er ekkert að grenja yfir því að vera hér svo seint, eins og ég segi finnst mér þetta ágætt, en við verðum að fá að vita það.