144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:47]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla að taka undir það með félögum mínum og hv. þingmönnum sem hér hafa talað að auðvitað er nauðsynlegt að fá að vita og fá svör við því hversu lengi við eigum að halda áfram og ég er nú þannig stemmd að ég læt mér enn um sinn þetta ekki duga. Ég mundi vilja fá eitthvað fastara í hendi en það.

Ég þarf að mæta á tvo fundi í fyrramálið, bæði í fjárlaganefnd og í allsherjar- og menntamálanefnd, en það er eins og með annað, það er ekkert í gildi. Formaður fjárlaganefndar hafði gert ráð fyrir að fundur stæði jafnvel til hádegis, þannig að það er ekkert utanumhald um dagskrá þingsins. Það er auðvitað algerlega ólíðandi að ríkisstjórnin geti ekki einu sinni haft samráð við formenn sinna nefnda til að hægt sé að setja niður einhverja dagskrá hér næstu daga varðandi nefndir.

Þess utan er svo alveg ótækt að afgreiða einhver mál í nefndum þegar fyrirséð er að hér liggja, hvað voru það, 70 og eitthvað mál sem ríkisstjórnin kom með á (Forseti hringir.) fund formanna í dag og ætlaðist til að væru afgreidd. Svo á að bæta við þann lista. Þetta er óboðlegt, virðulegi forseti, við þurfum að fara að ljúka hér dagskrá svo fólk geti farið heim og verið undirbúið undir morgundaginn og lesið (Forseti hringir.) þau nefndarálit sem til þarf.