144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:48]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér er allt í tómu rugli. Síðastliðinn föstudag þegar átti að vera samkvæmt starfsáætlun síðasti þingdagurinn var hér verið að mæla fyrir samgönguáætlun, samgönguáætlun sem tók stjórnarflokkana tvo mánuði að afgreiða úr þingflokkum. Í dag er verið að mæla fyrir því máli sem við erum hér að ræða og við höfum líka beðið eftir því í allan vetur, og hæstv. sjávarútvegsráðherra fer bara af landi brott. Þetta er allt saman dálítið lýsandi fyrir stöðuna sem við erum í á þessu þingi í boði stjórnarflokkanna. Menn vita ekkert hvað þeir vilja gera og þeir geta ekki klárað málin. Það er enn þá þannig að við gerum ráð fyrir því að ljúka þessu þingi á málum sem eru ókomin hingað inn.

Það er ekki hægt að bjóða okkur síðan upp á það að láta okkur standa hér fram eftir nóttu á fundum þegar við eigum síðan að fara á nefndarfundi morguninn eftir þegar staðan er svona. Þessir stjórnarflokkar ráða bara ekkert við verkefnið. Það er svo einfalt.