144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:59]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég get eiginlega ekki horfið héðan í kvöld nema taka fram að mér finnst með öllu óboðlegt hvernig unnið er hérna og hvernig boðað er til nefndarfunda í fyrramálið. Það er verið að setja stórmál á dagskrá sem mælt var fyrir fyrir helgi eins og samgönguáætlun. Verið er að boða gesti utan af landi með engum fyrirvara og biðja þá um að koma á fundi áður en fyrsta vél frá viðkomandi landsvæði lendir hér í borginni. Þetta eru vinnubrögðin núna og þetta er það sem stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að viðhafa. Mér finnst þetta með öllu óboðlegt og ég verð að segja það að núna þurfa stjórnarflokkarnir að taka sig saman í andlitinu og taka einhverja ákvörðun um hvaða málum eigi að ljúka hér og hverjum ekki vegna þess að fram að því reikum við hér stefnulaust um í nefndunum og verið er að draga hingað gesti frá hinum ýmsu landshornum algerlega án þess að menn viti hvort viðkomandi mál verða afgreidd út eða ekki. Þetta er þinginu til vansa og er þessum stjórnarflokkum til skammar.