144. löggjafarþing — 116. fundur,  2. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[00:01]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum enn að ræða þetta mál um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns. Mig langaði að koma aðeins inn á það að við erum hér að ráðstafa 5,3% af heildaraflanum í íslenskum sjávarútvegi. Það er umtalsvert þó að það sé ekki verðlagt hér í þessari þingsályktunartillögu. En það sem mér finnst truflandi þegar maður veltir þessum málum fyrir sér er að þeim aðgerðum er ætlað að hafa atvinnu-, félagsleg og byggðaáhrif.

En það sem í ljós kemur þegar maður setur sig inn í þessi mál og skoðar þau er að byggðakvótinn, þessi almenni, virðist ekki hafa áhrif til aukinnar byggðafestu á þeim stöðum sem Byggðastofnun skoðaði sérstaklega út frá sínum sérstaka byggðakvóta, á meðan sérstaki byggðakvótinn virðist hafa mun jákvæðari áhrif. En samt sem áður er verið að úthluta í almenna byggðakvótann fjórðungi af þessum 5,3% sem er 1,25% af heildaraflanum í einhvers konar félagslegri byggðaaðgerð sem samt er einhvern veginn ekki ljóst hvort skili einhverjum árangri. Mér finnst svo skrýtið í svona lögum, eins og lögum um fiskveiðistjórn, sem eru ítarleg og með svona mikilli stýringu að það sé ekki miklu betra og heildstæðara kerfi sem fylgir því eftir að ráðstöfun á slíkum gríðarlegum verðmætum nái markmiðum sínum.

Það sem kemur fram þegar maður les sig til hérna í línuívilnuninni er að ætlunin sé „að gera úttekt eftir sjávarbyggðum á því hvar línuívilnun hefur afgerandi áhrif sem atvinnu-, félags- og byggðaaðgerð“. Það er reyndar verið að draga úr línuívilnun lítillega en hún er samt 19,91% af þessu, verður reyndar það sama og á yfirstandandi ári en dróst þá saman. Í reglugerð um línuívilnun er kveðið á um að beita þurfi línuna á landi eða stokka upp og ekki séu önnur veiðarfæri um borð í bátnum, en nú á að fara að leita leiða til að leyfa beitningarvélar í bátunum en koma þá með einhvers konar vinnsluskyldu á línuívilnunaraflann til að styrkja byggðaáhrif línuívilnunarinnar.

Ég vildi bara koma hingað upp til að lýsa því að þetta er auðvitað gamalgróið kerfi og þetta er leið til þess að mæta sjávarbyggðum sem hafa mátt þola það að kvótinn sópaðist frá þeim í einu vetfangi og það er mjög lögmætt markmið. En það er mjög truflandi þegar við erum að tala um önnur eins verðmæti eins og ríflega 5% af heildarafla sjávarútvegsins að ekki liggi betur fyrir hver áhrifin af þessum aðgerðum eru. Og þegar verið er að gefa ráðherra gríðarleg völd í formi reglugerða þá hefur maður áhyggjur af því að það sé kannski ekki verið að setja þetta á rétta staði eða til réttra aðila og maður veltir þá líka fyrir sér hvað ræður því að það fer á einn stað umfram annan og einn aðila umfram annan án þess að fyrir liggi einhver almennileg úttekt á því hver áhrifin verði eða hafi verið. Ég held að fara þurfi vel ofan í saumana á þessu til frambúðar og aðeins að viðra skúffurnar í skrifborði sjávarútvegsráðherra.