144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hér á sama stað og hv. þm. Karl Garðarsson, en í fréttum helgarinnar mátti heyra fullyrðingar hv. þingmanns Samfylkingarinnar, Oddnýjar Harðardóttur, þar sem hún fór með afar villandi staðreyndir um skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar. Framsetning þingmannsins er vægast sagt villandi og því langar mig að rifja upp þær tölulegu staðreyndir sem til eru um leiðréttinguna.

60% af heimilum sem fengu leiðréttingar voru með 8 millj. kr. eða minna í árstekjur. Það eru heimili með 670 þús. kr. í laun á mánuði, t.d. hjón sem hafa hvort um sig 335 þús. kr. á mánuði. Ekki get ég séð að það sé um hátekjufólk að ræða, langt frá því. Stærstur hluti leiðréttingarinnar fór til heimila með árstekjur undir 4 millj. kr. Leiðréttingin nam um 35% árstekna þeirra heimila sem voru með undir 4 millj. kr. í tekjur og 20% hjá þeim sem voru með undir 6 millj. kr. Hins vegar nam leiðréttingin aðeins um 8% tekna hjá þeim sem voru með 12 millj. kr. í tekjur. Ástæða er til að bera orð hv. þingmanns Samfylkingarinnar saman við 110%-leið vinstri stjórnarinnar. Þar fengu þeir 1.250 aðilar sem fengu mest út úr 110%-leiðinni um 21 millj. kr. að meðaltali. Á meðan fengu þeir 1.250 sem fengu mest út úr skuldaleiðréttingu núverandi ríkisstjórnar 3,5 millj. kr. að meðaltali.

Gagnrýni þingmannsins kemur á sama tíma og ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins boðar viðamiklar aðgerðir fyrir tekjulág heimili á leigumarkaði, eitthvað sem Samfylkingin hefði kannski átt að gera í stjórnartíð sinni en gerði ekki. Þessar umfangsmiklu aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru verulega ánægjulegar. Þær felast í að byggja 2.300 félagslegar leiguíbúðir á fjórum árum. Markmiðið er að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum fyrir tekjulágar fjölskyldur. Með þessum aðgerðum verður tekjulágum fjölskyldum sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslega kerfinu tryggður aðgangur að ódýru og öruggu húsnæði. Einnig erum við að stórauka fjármagn inn í húsnæðisbætur og þar með verður stuðningur við þá sem eru á leigumarkaði jafnaður við þá sem eru í eigin húsnæði. (Forseti hringir.) Er það afar jákvætt og mikið framfaraskref. Er til of mikils mælst að fólk fari með staðreyndir hér en ekki villandi hluti?