144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að koma aðeins inn á kjaramálin hér í dag. Ég sakna þess svolítið að við séum ekki að ræða þau í stærra samhengi á þingi. Mér finnst að einhver af þeim mörgu málum, 70 málum sem bíða okkar, mættu bíða og við ættum að vera að ræða þennan málaflokk, vegna þess að hann er gríðarstór og vandasamur. Það er líka að sumu leyti svolítið erfitt að ræða um kjaramál. Það er viðkvæmur málaflokkur.

Nú eru hópar opinberra starfsmanna í verkfalli og vandamálið er að þegar opinberir starfsmenn fara í verkfall þá bitnar það ekki á vinnuveitandanum, ríkinu, heldur á saklausu fólki, eins og við sjáum í dag, beinlínis sárveiku fólki, þeim sem síst skyldi. Það hefur jafnvel verið talað um hvort eðlilegt sé að heilbrigðisstarfsmenn hafi verkfallsrétt. Það er umræða sem þarf að taka, en lögreglumenn sömdu af sér verkfallsréttinn og ekki hefur þeim gengið vel í sinni kjarabaráttu, ég held að flestir geti verið sammála um að þeir séu með of lág laun. Það þarf að taka umræðu um launakjör hjá ríkinu. Ég á svolítið erfitt með að skilja hvað er svona flókið við að greiða sambærileg laun fyrir sambærilega menntun og reynslu. Mér finnst líka umræðan um það hvort við séum að ofmennta eiga rétt á sér. Ég velti stundum fyrir mér hvort margt af því eða eitthvað af því sem t.d. læknar sinna í dag gætu hjúkrunarfræðingar gert eða hvort það sé þannig að eitthvað af því sem hjúkrunarfræðingar gera í dag gætu sjúkraliðar sinnt. Ég veit það ekki, en mér finnst þetta vera umræða sem þurfi að taka, hvort við séum kannski í sumum tilfellum að minnka ákveðinn sveigjanleika með því að vera með allt of niðurnjörvað. Þetta er erfið og viðkvæm umræða sem við eigum samt að taka.

Inn í þessa umræðu vil ég síðan líka spyrja hvort bestu kjörin fyrir Íslendinga væru ekki að fá almennilegan, nothæfan gjaldmiðil. Mér finnst furðulegt að við séum ekki að ræða það á hverjum degi. (Forseti hringir.) Lægra vaxtastig og að fólk fengi ekki launin sín greidd út í (Forseti hringir.) óverðtryggðum krónum sem enginn treystir.