144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil koma aðeins inn á hinn mikla mun sem er á rafmagnsverði í landinu. Mér finnst gott að minna á hann því að það er auðvitað búið að vera til umræðu mjög lengi hjá öllum stjórnmálaflokkum að jafna húshitunarkostnað og orkukostnað í landinu. Okkur miðar hægt, en þó er þetta að mjakast í rétta átt. Eins og við þekkjum var samþykkt mál um jöfnuð dreifing á rafmagni fyrir nokkru síðan og nú er fyrir Alþingi mál um jöfnun á húshitunarkostnaði gagnvart fjarvarmaveitum. Við eigum samt langt í land. Það eru mjög sláandi tölur sem koma fram í þessu samhengi. Munurinn á hæsta og lægsta rafmagnsverði í þéttbýli á Íslandi er 47% samkvæmt útreikningum Orkustofnunar. Byggðastofnun hefur óskaði eftir þessum útreikningi.

Gerður var samanburður á kostnaði við raforkunotkun við húshitun á ákveðnum fasteignum á nokkrum þéttbýlisstöðum og nokkrum stöðum í dreifbýli á ársgrundvelli. Þar kemur fram að verðið er lægst á Akureyri og næstlægst í Vestmannaeyjum, en rafmagnsverð hjá notendum Orkubús Vestfjarða í dreifbýli er hæst. Mér finnst það vera mjög sláandi og sýnir í raun og veru hversu langt við eigum í land. Við eigum að leggja mikla áherslu á að jafna húshitunar- og rafmagnskostnað að fullu. Ég tel það vera verkefni sem vinna eigi að og ekki draga allt of lengi, til dæmis á stað eins og Hólmavík þar sem heildarrafmagnskostnaður við húshitun er hæstur á landinu. (Forseti hringir.) Í þessu efni munar gífurlega á hæsta og lægsta verðinu.