144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera athugasemd í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað um skuldalækkanir, þ.e. að ekki hafi verið komið hingað inn með þær upplýsingar og svör við fyrirspurnum sem lagðar hafa verið fram ítrekað í vetur einmitt um það sem menn ræða hér þannig að þá liggi fyrir svart á hvítu hvert þessir fjármunir fóru.

Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir hefur óskað eftir þessum upplýsingum í fjárlaganefnd og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hefur lagt fram formlega fyrirspurn í mörgum liðum um þetta efni. Ég spyr: Getur eða treystir fjármálaráðherra sér ekki til þess mánuðum saman að koma með þessar upplýsingar í þingið? Getur verið að menn treysti sér ekki með þessar upplýsingar inn í það andrúmsloft sem er á vinnumarkaði? Treystu menn sér ekki til að birta þessar upplýsingar áður en kjarasamningar voru undirritaðir? Getur það verið? Getur verið að upplýsingarnar séu þess eðlis að menn hafi ekki treyst sér til að birta þær?

Auðvitað fer maður að spyrja sig slíkra spurninga þegar menn treysta sér ekki til að svara þessu mánuðum saman.

Það auðvitað gengur ekki og það er dálítið í anda þeirra vinnubragða sem við upplifum almennt í þinginu, þ.e. að menn eru hér sífellt í einhverjum leikjum og færast undan því að fjalla af einhverri alvöru um mikilvæg mál. Menn vildu ekki ræða kjarasamninga í þinginu. Menn hafa ekki viljað ræða með hvaða hætti þeir ætla að leysa úr þeirri vinnudeilu sem nú er í gangi milli ríkisins og opinberra starfsmanna sem búin er að standa yfir í 56 daga. Menn vilja ekki ræða nein alvörumál hér inni og menn vilja heldur ekki svara spurningum um mikilvægum mál, eins og ég hef nefnt.

Við það vil ég gera athugasemd, virðulegi forseti. Ég tel að við getum ekki gert hér þinghlé eða lokið þessu þingi öðruvísi en að upplýsingar komi fram um hvernig fjármunum ríkisins til (Forseti hringir.) skuldalækkana var varið og til hvaða (Forseti hringir.) tekjuhópa.