144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[14:37]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Önnur grein sem stendur smástyr um er um hreyfanleika starfsmanna innan stjórnsýslunnar. Ég hef í raun alveg skilning á því en velti fyrir mér hvort eðlilegra hefði verið að byrja á því að segja að Stjórnarráðið væri einn vinnustaður, fólk kæmi þangað til starfa, það væru sambærileg laun og vinnuaðstaða óháð ráðuneyti, sem mér finnst eðlilegt, fólk færi á milli ráðuneyta ef það hefði áhuga á því og ég er viss um að það getur verið gott fyrir starfsmenn og eitthvað sem menn ættu allt eins að sækjast eftir. Hérna er hins vegar verið að tala um að flytja líka á milli stofnana. Þótt ég persónulega geti séð að gott væri að hafa meiri sveigjanleika þá hef ég líka skilning á því sjónarmiði sem stéttarfélög voru með, að starfsmenn eru ekki endilega í mjög góðri stöðu til að neita flutningi. Auðvitað á starfsmaðurinn sjálfur að samþykkja og yfirmaður, en í hvað stöðu er verið að setja starfsmanninn ef hann vill ekki flytja, fara kannski úr ráðuneyti yfir í aðra stofnun?

Ég velti fyrir mér hvort eitt eðlilegt skref hefði ekki verið að tala um Stjórnarráðið sem einn vinnustað en ekki vera að blanda stofnunum í þetta á þessu stigi, því að ég skil það þá þannig að einhver sem er kannski núna í ráðuneyti geti þá flust yfir á Landspítalann. Það eru eiginlega engin takmörk fyrir því.