144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[14:40]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Við höfum til umræðu frumvarp sem ég held að í hugum margra sé kallað Fiskistofufrumvarpið. Forsætisráðherra mótmælti því reyndar hér við 1. umr. að þetta fjallaði um Fiskistofu; það er ekkert minnst á Fiskistofu í þessu frumvarpi, sagði hann. Það er hárrétt hjá forsætisráðherra, það er ekkert minnst á Fiskistofu í frumvarpinu. Hins vegar er alveg ljóst að frumvarpið er sett fram til að afla lagagrundvallar til að flytja stofnunina Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar, en það var hugdetta sem forsætisráðherra fékk og tilkynnti á fundi að stæði til, og síðan tók hæstv. sjávarútvegsráðherra af skarið um að það skyldi gert. Þetta gerðist allt saman síðasta haust, virðulegi forseti.

Síðan hefur margt gerst í þessu máli og nú síðast, fyrir fáeinum vikum, lýsti sjávarútvegsráðherra því yfir að ekkert yrði af flutningnum á þessu ári. Það er því ljóst að einmitt vegna þess að það er ekki í hendi eins ráðherra að flytja heila stofnun landshorna á milli þá er ekki hægt að gera það samkvæmt hugdettu eins eða tveggja manna.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór vel yfir þetta mál í framsögu sinni í gærkvöldi. Hann sagði réttilega að ekki væri ágreiningur um að ekki megi flytja stofnanir á milli landshluta. Það er enginn ágreiningur um að það eigi að vera hægt, en það þarf að gera það á sómasamlegan hátt og í samráði við starfsfólk. Það þurfa allir að átta sig á því að flutningur starfsmanna jafngildir því að rífa fjölskyldur upp með rótum og ekki er hægt að gera það án undirbúnings eða samráðs.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að þetta ákvæði, um að ráðherra ákveði hvar stofnanir skuli settar niður, hafi verið fellt úr stjórnarráðslögunum þegar þau voru endurskoðuð 2011 og það er rétt. En látið er að því liggja í frumvarpinu að af því að ekkert væri sérstaklega minnst á það í athugasemdum með frumvarpinu, af því að ekki er sérstaklega talað um það í ræðum, af því að þess er hvergi sérstaklega getið, þá hafi það dottið út óvart. Til sannindamerkis um er það að ekkert er um þetta í greinargerð.

Ég þori að fullyrða, virðulegi forseti, að það var engin tilviljun að þetta datt út. Það var heldur engin tilviljun að hvergi var á þetta minnst. Það var vegna þess að öllum sem komu að málinu á þeim tíma þótti það svo sjálfsagt að þetta ákvæði færi úr lögunum að það þótti engum taka því að minnast á það. Og af hverju fannst fólki og þingmönnum það svona sjálfsagt? Nú, það er til dæmis ljóst, bara til að bæta því við, að enginn sem skilaði umsögnum við þetta gerði athugasemd við það. Það er vegna þess að stjórnarráðslögin voru endurskoðuð 2011 eftir að rannsóknarskýrsla Alþingis um fall bankanna, stóra rannsóknarskýrslan, kom út. Í þeirri skýrslu er mjög varað við því að framkvæmdarvaldinu, og sérstaklega einstökum ráðherrum, hafi verið færð of mikil völd, og það er að hluta til þess vegna sem lögunum var breytt og þetta ákvæði féll út. Í mínum huga er enginn vafi á því að það var ekki tilviljun að þetta datt út úr lögunum 2011.

Við sjáum það líka, virðulegi forseti, hvernig fer þegar valdið er á hendi eins ráðherra. Fiskistofa og vandræðagangurinn í kringum hana, áhyggjur fólksins sem vinnur á Fiskistofu, áhyggjurnar sem þetta fólk og fjölskyldur þess hafa haft í allan vetur, þær sýna að það á ekki að vera á hendi einnar manneskju, konu eða karls, að ákveða slíkt. Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Karls Garðarssonar þá getur Alþingi alltaf ákveðið eitthvað annað þó að þetta sé þarna inni. En það er allt annar hlutur, virðulegi forseti, að Alþingi grípi fram fyrir hendurnar á ráðherra þegar hann er í flumbrugangi af þessu tagi, enda sjáum við að á Alþingi ræður meiri hlutinn; okkur finnst nú stundum svolítið mikið kallað um það að ekki eigi að hlusta á einn eða neinn af því að meiri hlutinn ráði, eins og hæstv. fjármálaráðherra tekur fram með vissu millibili. Þá er náttúrlega mikil vörn í því fyrir okkur öll að fólk sé ekki rifið upp með rótum eins og starfsmenn Fiskistofu hafa staðið frammi fyrir í vetur, að það sé sem sagt á valdi Alþingis hvar stofnanir eru settar niður.

Ég gef lítið fyrir það þegar menn eru að tala um mörkin í kringum Reykjavík, þá eru menn pínulítið að snúa út úr. Þegar ný stofnun er sett á laggirnar væri í lögum um hana hægt að ákveða hvar staðsetja eigi hana og svo getur Alþingi breytt því. Ef menn vilja flytja stofnanir þá geta þeir lagt það fyrir Alþingi hvert eigi að flytja stofnunina og hvernig eigi að standa að því.

Ég vil nefna það í sambandi við þetta ráðríki, sem einkennir um margt þessa ríkisstjórn, að nú liggur fyrir frumvarp um almannatryggingar og þá skilst mér að þar eigi að setja það niður að ráðherra megi ákveða hvar Tryggingastofnun eigi að vera. Ég held að þá sé frekar rétt að það sé ákveðið í þeim lögum hvar Tryggingastofnun eigi að vera. Ég verð nú að segja það — með fullri virðingu fyrir landsbyggðinni og því sem við öll viljum gera, að efla landsbyggðina — þá held ég að það væri nú svolítið skrýtið að færa Tryggingastofnun mjög langt frá Reykjavík. Það væri kannski allt í lagi að hún væri í Kópavogi eða Hafnarfirði — sumum finnst það svolítið fáránlegt að geta ekki sótt vegabréfið sitt hér í Reykjavík og þurfa að fara í Kópavoginn. Mér finnst það ekki, mér finnst það allt í lagi og þjónusta hjá sýslumanninum þar er góð.

Virðulegi forseti. Mig langar að minnast á annað atriði í þessu. Í frumvarpinu segir að 17. gr. eigi að orðast svo:

„Ráðherra skal skipuleggja aðalskrifstofu ráðuneytis með því að skipta henni upp í fagskrifstofur og skal hverri skrifstofu stýrt af skrifstofustjóra undir yfirstjórn ráðuneytisstjóra. Jafnframt er heimilt að setja á fót sérstakar starfseiningar og ráðuneytisstofnanir sem eru starfræktar sem hluti af ráðuneyti. Slíkum starfseiningum stýrir embættismaður, í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, undir yfirstjórn ráðuneytisstjóra.“

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er svolítið rugluð í því hvað þetta þýðir. Mér hefur stundum fundist þetta þýða það að hægt væri að setja á stofn einhverja skrifstofu — jafnvel úti á landi, það er allt í lagi, ég er ekki að segja það — sem væri þá hluti af ráðuneytinu þó að það væri ekki á sama stað og þetta væri sérstök stjórnsýsluskrifstofa.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson minntist í gærkvöldi á áhuga sinn á því að setja á stofn happdrættisstofu, sem ekki naut mikilla vinsælda meðal þingmanna, og gat þess sem dæmis að honum hefði verið heimilt, samkvæmt þessari grein, að setja hana á stofn. Mér fundust það svolítil tíðindi í máli hans hér í gær. En það sem mér finnst í þessu — með allt þetta kerfi, stjórnsýsluskrifstofur, sjórnsýslustofur, þá í ráðuneytum eða utan þeirra, sem heyra undir ráðuneytið — er að mér finnst þetta allt orðið allmjög ruglingslegt. Á síðasta kjörtímabili voru gerðar mjög veigamiklar breytingar, t.d. í samgöngumálum þegar Samgöngustofa var stofnuð, og þar voru hlutir færðir til. Á sama tíma og verið er að leggja til að þessar stofur séu stofnaðar, heimilaðar, eins og hér er gert, þá liggur líka fyrir frumvarp sem er til umræðu hér í þinginu um að stofnuð verði einhver menntamálastofa — menntamálaskrifstofa, held ég að hún eigi að heita — og færa eigi ákveðin stjórnsýsluverkefni úr menntamálaráðuneytinu, eins og var gert að hluta til varðandi Samgöngustofu. En þetta er allt í tvær áttir, finnst mér vera.

Nú er ég ekki að segja, virðulegi forseti, að stofnanir geti ekki verið misjafnar, og að misjafnt stofnanakerfi eigi ekki við í einstökum málaflokkum, en ég tel samt sem áður að við þurfum að hafa yfirsýn yfir hvernig þetta allt eigi að virka. Þess vegna finnst mér það bagalegt að þessu atriði sé stungið inn í þetta frumvarp. Ég hefði viljað að gerð væri — ef menn vilja breyta í þessu — heildarúttekt, ef ég má kalla það svo, á því hvernig þessum stjórnsýsluverkefnum væri best fyrir komið og þá misjafnlega ef svo ber undir í einstökum málaflokkum.

Ég vil líka ítreka það, sem ég kom inn á í andsvari mínu við hv. þm. Karl Garðarsson hér áðan, að mér finnst skipta máli í þessu efni að stjórnsýslan er ekki til fyrir embættismenn. Hún er ekki til fyrir Stjórnarráðið. Hún er ekki til fyrir lögfræðinga sem sitja í úrskurðarnefndum. Hún er til fyrir fólkið í landinu og það skiptir máli að fólk átti sig á hvert það á að leita og að það standi ekki frammi fyrir miklum og stórum frumskógi þegar það ætlar að fá úrlausn sinna mála. Mér finnst þetta ákvæði svolítið benda til þess að embættismönnunum þætti betra að hafa þetta svona, og núna finnist þeim allt í einu sniðugt að setja upp einhverjar stofur og þá eigum við að gera það.

Áðan var líka komið inn á úrskurðarnefndirnar og ég nefndi það í andsvari við hv. þm. Karl Garðarsson. En svo að ég vitni í álit meiri hlutans varðandi þetta þá segir þar:

„Á fundum nefndarinnar var einnig rætt hvort sjálfstæðar úrskurðarnefndir eigi í öllum tilvikum rétt á sér. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að þrátt fyrir að sterkar röksemdir geti búið að baki stofnun slíkra nefnda sé það meginregla íslenskrar stjórnskipunar, sbr. 14. gr. stjórnarskrárinnar, að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Með stofnun sjálfstæðra stjórnsýslunefnda og stjórnsýslustofnana séu tiltekin málefnasvið og ákvarðanir á sviði framkvæmdarvaldsins undanskilin ábyrgð ráðherra sem hafi veikt yfirstjórnunarhlutverk ráðherra og ráðuneyta gagnvart viðkomandi undirstofnunum. Meiri hlutinn bendir á að það er því enginn sem svarar fyrir ákvörðunartöku slíkra nefnda og stofnana gagnvart Alþingi þó að borgararnir geti kvartað til umboðsmanns.“

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á áðan þá er ákveðin pólitísk hugsun í því að færa þetta vald frá ráðherranum og mér finnst það til sannindamerkis — allt í einu er farið að tala um úrskurðarnefndirnar og svo þessar stofur — um að þetta er ekki nógu skýrt og það á ekki að vera með svona bútasaum í þessum mikilvægu verkefnum sem tilheyra stjórnsýslunni.

Virðulegi forseti. Mig langar líka aðeins að koma inn á það sem er fylgifiskur þessa frumvarps. Það er alltaf að gerast að flutt er lagafrumvarp — eins og nú um flutning Fiskistofu — um að ráðherra ákveði hvar stofnanir eigi að vera, og svo er alls konar hlutum bætt inn í slík frumvörp Hérna er til dæmis allt í einu farið að breyta lögunum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og verið að heimila að flytja starfsmenn á milli stofnana og Stjórnarráðsins, en þegar er heimilt að flytja menn milli einstakra ráðuneyta.

Í áliti okkar í minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segir um þetta:

„Í umsögnum til nefndarinnar kemur fram gagnrýni á ákvæðið frá fulltrúum launþega. Hún felur meðal annars í sér að reynsla af flutningum starfsmanna samkvæmt gildandi lögum sé ekki góð og einnig að starfsmenn séu sjaldan í raunverulegri aðstöðu til að neita slíkum flutningum. Minni hlutinn vekur athygli á þessum sjónarmiðum.“

Ég tel rétt að við vekjum athygli á þessum sjónarmiðum, virðulegi forseti. Ég vil hins vegar segja að það þarf að búa þannig um hnútana í ríkisrekstrinum að þar sé ekki allt rígbundið niður og að þar sé einhver hreyfanleiki. En það þarf að huga að því að hafa um það samstarf við starfsmannafélögin. Ég er svo sem ekki andvíg því að einhver hreyfanleiki sé í því hvernig starfsmenn geta flust á milli starfa í ríkiskerfinu og jafnvel á milli stofnana og Stjórnarráðsins, en það þarf að huga mjög vel að þessu.

Mig langar í lokin að koma að því sem er að afnema þessa nefnd, ég held hún heiti samhæfingarnefnd:

„Forsætisráðuneytið gefur stjórnvöldum ráð um túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað, stendur fyrir fræðslu um þær innan Stjórnarráðsins og fylgist með að þær nái tilgangi sínum.“

Þetta er í 8. gr í frumvarpinu, virðulegi forseti, og þá er lögð niður einhver samhæfingarnefnd sem á að starfa hjá ríkinu um siðareglur þar.

Virðulegi forseti. Ég vil benda á bréf umboðsmanns sem hann skrifaði forsætisráðherra eftir að hann lauk frumkvæðisathugun sinni um lekamálið. Þar kemur fram að hann er ekki alveg viss hvort siðareglur gildi fyrir ríkisstjórnina eða ekki, að það sé forsætisráðuneytið sem ætti þá að sjá til þess. Nú vil ég ekki gagnrýna embættismennina í forsætisráðuneytinu (Forseti hringir.) vegna þess að það er ráðherrann sem ræður þar ríkjum. Það er erfitt að gera þá kröfu að forsætisráðuneytið, sem veit ekki einu hvort siðareglur eru til fyrir ríkisstjórnina eða ekki, hafi mikið verkefni á sviði alls Stjórnarráðsins í þeim efnum.