144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað reiknað með því að framkvæmdarvaldið sé hjá ráðherra. Þetta er hluti af þrískiptingunni, framkvæmdarvald og löggjafarvald, og að löggjafarvaldið sé að fara inn á svið framkvæmdarvaldsins með því að ákveða að þingið þurfi að ákveða hvar einhver stofnun er staðsett — hvað er næst? Á þingið að ákveða hvort einhverjum megi segja upp? Hvað ætla menn að ganga langt?

Þetta er hluti af stjórnarákvörðunum, þetta er hluti af því og þess vegna á það heima þar. Eins og við allar stjórnarframkvæmdir og athafnir ber ráðherra auðvitað að fara að lögum, hvers konar lögum sem geta skipt máli við þær ákvarðanir.

Ég vil að öðru leyti segja, vegna þess að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir minntist á úrskurðarnefnd og fleiri þingmenn hafa talað um hina miklu armslengd, sem fer alveg hræðilega í taugarnar á mér, að það er af sömu ástæðu sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir að ráðherra beri alla ábyrgð, þ.e. svo að ekki sé verið að færa vald til stjórnsýsluúrskurðarnefndar, sem er umboðslaust fólk, sem ákveði réttindi borgaranna. Ef menn vilja taka þetta vald frá ráðherra, sem ber ábyrgðina, þá er rétt að stofna stjórnsýsludómstól. Er það ekki? Er það ekki miklu eðlilegra en að eitthvert fólk sem ráðherrann hefur engin tengsl við og hefur ekkert yfir að segja ákveði réttindi borgaranna?