144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:10]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún kom í ræðu sinni inn á 1. gr. þar sem kveðið er á um að ráðherra ráði aðsetri stofnunar sem undir hann heyrir nema á annan veg sé mælt í lögum, og minntist einmitt í því samhengi á það að í breytingu á lögum um almannatryggingar sé fellt úr lögunum ákvæði um aðsetur Tryggingastofnunar og ákvörðunarvald um staðsetningu hennar færð til ráðherra.

Nú held ég að það sé sérstaklega mikilvægt að stofnun eins og Tryggingastofnun sé miðsvæðis, hún sé til dæmis mjög vel tengd almenningssamgöngum enda er sá hópur sem til hennar leitar kannski sá hópur sem er einna ólíklegastur til þess að eiga einkabíl. Þess vegna skiptir staðsetning stofnunar, ekki bara hvar hún er á landinu heldur hreinlega hvar hún er innan þéttbýlis gríðarlega miklu máli. Í því sambandi má til dæmis nefna að staðsetning Sjúkratrygginga Íslands, sem er alveg á jaðrinum, er mjög óheppileg fyrir þá sem þangað þurfa að sækja sér þjónustu.

Þetta var kannski smáútúrdúr en mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að það að ráðherra hafi þessa heimild, eins og lagt er til í frumvarpinu, sé líklegra til þess að ýta undir geðþóttaákvarðanir og það sem á fallegu máli mætti kannski kalla kjördæmavelvildarpólitík, en á hefðbundinni íslensku heitir kannski bara kjördæmapot.