144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel svo vera. Ég tel að þessi breytingartillaga sé til bóta. Það kemur að vísu ekki fram í nefndaráliti minni hlutans að minni hlutinn styðji þessa breytingartillögu en ég held að ég fari rétt með, virðulegi forseti, að það hafi komið fram í ræðu formanns nefndarinnar, hv. þm. Ögmundar Jónassonar, í gær þegar hann mælti fyrir minnihlutaálitinu að við styðjum þessa breytingartillögu. Það voru sem sagt samtökin eða ég veit ekki hvað á að kalla það, IMMI sem vakti athygli á þessu og mælti með þessari breytingu. Minni hlutinn styður hana. Maður sér það bara í hendi sér að það er í eðli sínu ekki einfalt mál hvernig á að koma orðum að því að skrá þessar upplýsingar. Ég man eftir því að þegar lögin voru sett 2011 þá var þetta mjög mikið rætt. En þau komu með þessa breytingartillögu og það var enginn ágreiningur um það og það var enginn ágreiningur heldur hjá embættismönnunum sem þó höfðu væntanlega verið einhverjir gerendur í því hvernig tillagan kom upphaflega fram í frumvarpinu. En það var enginn ágreiningur um að standa að þessari breytingartillögu.