144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:44]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek fram að ég er alfarið þeirrar skoðunar að slíkar ákvarðanir eigi að koma til umfjöllunar hér í þinginu. Ég er að sama skapi þeirrar skoðunar að stjórn hverju sinni eigi að geta ákveðið sjálf hvernig hún vill haga að minnsta kosti skiptingu verkefna þegar kemur að sjálfu Stjórnarráðinu, þ.e. ráðuneytaskipan og hvaða málaflokkar falla saman, en hún þurfi að fara með það í gegnum þingið.

Eitt af vandamálum íslenskrar stjórnsýslu og þess sem við glímum við hér er að ráðuneytin í samanburði við undirstofnanir sínar eru tiltölulega veik. Þegar kemur að sérfræðiþekkingu og mannafla þá eru ráðuneytin oft miklu minni og ekkert nándar nærri jafn burðug að mannskap til að glíma við verkefnið. Þetta verður til þess að undirstofnanir standa miklu styrkari fótum þegar kemur að verkefnum, útreikningum og slíku og átökum og deilum sem upp kunna að koma. Þetta skapar mjög óeðlilega stöðu. Að sama skapi er valdajafnvægið milli Stjórnarráðsins og þingsins að mínu mati mjög bjagað. Við þurfum auðvitað að stefna að því að reyna að styrkja alla þessa þætti þannig að þetta geti virkað sem best saman. Auðvitað þurfa breytingar sem menn gera að þjóna því markmiði að gera þær stofnanir sem eru búnar til og settar saman til að þjóna markmiðum alls almennings eins góðar og mögulegt er. En ég er fyrst og fremst að leggja áherslu á það sjónarmið að þó að mál komi til umræðu í þinginu þá þarf það ekki að þýða að ekki sé hægt að gera neinar breytingar.