144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:46]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég hef vitnað aðeins í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þar kom meðal annars fram að ráðuneytin voru einmitt orðin of veik, þau voru orðin of lítil. Síðasta ríkisstjórn fór í það að sameina þau. Hv. þingmaður talar um að ráðuneytaskipan eða Stjórnarráðið ætti að geta verið svolítið eftir höfði hverrar ríkisstjórnar. Ég er ekki alveg sannfærð um að það sé gott í sjálfu sér. Nú er verið að skipta öllu upp aftur eða einhverju alla vega og hugmyndir uppi um að gera jafnvel meira af því. Það er líka mikið álag fyrir stjórnkerfið að standa mikið í slíku og hluti af því áliti að ráðuneytin væru of lítil var að þau væru ekki nógu sterk þegar kæmi að undirstofnunum þeirra og skilvirkni.

En auðvitað eiga allar þessar breytingar, ég tek undir það, að snúa að því að styrkja þjónustuna og við eigum að búa um það þannig að við getum þjónað almenningi í landinu sem allra best og að skilvirknin sé sem mest. Hver er besta leiðin? Líklega höfum við ekki fundið hana enn þá, hvorki þá með því sem gert var síðast né núna en svo er auðvitað spurning: Þurfa ákveðnir þættir að lifa lengur en þeir fá að gera? Við kjósum jú á fjögurra ára fresti og gjarnan er skipt um í brúnni að einhverju leyti og allir hafa mismunandi sjónarmið gagnvart því hvernig þetta á að vera.

Svo er það hitt að þegar við skoðum þessar tilteknu stofnanir sem eru stjórnsýslustofnanir en eru ekki innan ráðuneytis, eru staddar uppi í Ögurhvarfi eða einhvers staðar, þá er þar auðvitað sérfræðiþjónusta og þekking, en styrkir það ráðuneytin per se? Ég veit ekki alveg hvort það þjónar þeim tilgangi sem til er ætlast. Það er hægt að setja verkefni til tiltekinna stofnana án þess að þær séu stjórnsýslustofnanir. Það er því að mörgu að hyggja í þessu og ég held að fyrst og fremst þurfi að vanda ferlið en ekki að gera þetta eins og hefur verið gert svolítið núna með Menntamálastofnun, að byrja áður en heimild er fengin og án þess að búið sé að rökstyðja málið almennilega.