144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:54]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, að mínu viti er ekkert sem tryggir að ekki geti farið nákvæmlega eins og fór. Ef heimildin hefði verið til staðar á þeim tíma sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ætlaði sér að flytja Fiskistofu til Akureyrar, veit ég ekki nema hann hefði, þrátt fyrir uppistandið sem verður í kringum það, látið af því verða. Auðvitað veit ég það ekki, ég er bara að geta í eyðurnar.

Allir skynsamir ráðherrar sem vilja fjölga störfum hvar sem er eða búa þeim nýjan stað — ef þeir vilja það sem er stofnunum, fólkinu sem þar vinnur, fyrir bestu, ef þeir vilja halda mannauðnum sem þar er innan dyra — hljóta að vilja umræðu um málið. Ef maður tekur svona einhendis ákvörðun sem varðar fullt af fólki, daglegt líf þess, sama hver það er og hvar hann býr, þá snýst það í höndunum á fólki. Það hefur gert það í bæði skiptin. Eins og við vitum og höfum dæmi um með Landmælingar þá rætist úr. Það er enginn að segja að í sumum tilfellum geti það ekki gerst. En það getur líka skaðað stofnunina til langs tíma, áður en ástandið fer svo kannski að batna.

Ég velti því líka fyrir mér: Þarf ráðherra að hafa svona mikið vald? Er eitthvað sem segir að stjórnsýslan verði betri eftir því sem ráðherra hefur meira vald? Við erum ekki í einræðisríki, sumir vildu eflaust vera það en það er ekki svo, við erum í lýðræðisríki. Þetta er líka spurningin um þá kúnst og kunnáttu að deila hlutunum þannig að fólk upplifi sig sem virkan þátttakanda í þeim breytingum sem verið er að takast á við.