144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:13]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Þetta var nú bara prýðisgóð ræða sem ég hefði líka alveg getað flutt. En nei, ég kannast ekki við það sem þáverandi hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór fram á, að hann sjálfur þegar hann er orðinn forsætisráðherra hafi stuðlað að því að þetta komi inn í þingið, ég kannast ekki við það. En það sem manni finnst dálítið skringilegt og er svolítið skringilegt við þennan vinnustað er hið ríkjandi viðhorf að fólk í minni hluta umpólast þegar það er komið í valdastöðu. Þetta er einhvern veginn svo ofboðslega tilgangslaust og ömurlegt að fólk sé ekki samkvæmt orðum sínum. Mér finnst það ömurlegt og það veldur mér miklum vonbrigðum að þegar fólk, eins og núverandi hæstv. forsætisráðherra í krafti stöðu sinnar sem formaður Framsóknarflokksins og þáverandi þingmaður, kemur með svona prýðisgóða sýn á mikilvægi þess að framselja ekki mikið vald um líf og hagi fólk til framkvæmdarvaldsins án almennilegs aðhalds og samráðs, að það skuli ekki fylgja með valdasprotanum upp í forsætisráðuneyti.