144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:58]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir ræðuna, hún var skelegg og góð og skýrði margt eins og hans er von og vísa.

En það er eitt sem mig langar að spyrja þingmanninn út í og velta fyrir mér. Þegar frumvarpið var lagt fram hélt ég smáræðu um það. En það sem hefur alltaf vakið athygli mína eftir að ég fór að fylgjast með stjórnmálum, og þá sérstaklega eftir að rannsóknarskýrsla Alþingis kom út, þá velti maður fyrir sér hvað hefði farið úrskeiðis. Meðal annars er viðtal við fyrrum ráðherra í skýrslunni þar sem fram kom hjá þeim, nánast öllum undantekningarlaust, að ráðherraræði og foringjaræði væri algert á Íslandi og því þyrfti að breyta og efla þyrfti eftirlitshlutverk Alþingis. Í 8. bindi skýrslunnar stendur á einum stað, með leyfi forseta:

„Mikið ráðherraræði eykur líkurnar á gerræðislegum ákvörðunum sem efla vald viðkomandi stjórnmálamanns. Þetta helst gjarnan í hendur við þrönga sýn á lýðræðið sem felst í því að stjórnmálamenn beri verk sín reglulega undir dóm kjósenda og þess á milli eigi þeir að hafa frjálsar hendur um það hvernig þeir fara með völd sín, svo lengi sem þeir halda sig innan ramma laganna. Þetta er afar þröng sýn á lýðræðislegt lögmæti stjórnarhátta. Það er mikilvægur hluti af lýðræðislegum stjórnarháttum að haga ákvörðunum stjórnvalda jafnan þannig að þær standist skoðun og séu teknar í sæmilegri sátt við þá sem málið varðar. Frá því sjónarmiði séð krefjast lýðræðislegir stjórnarhættir þess að mál séu faglega undirbúin, ígrunduð og vel kynnt, en ekki bara að verk stjórnmálamanna séu lögð í dóm kjósenda í lok kjörtímabils.“

Þetta er það sem vakti athygli mína í þessu máli og mig langar til að spyrja hv. þingmann: Finnst honum að þetta frumvarp sé í anda þess að reyna að laga þetta, að mæta þeim niðurstöðum sem komu fram í rannsóknarskýrslu Alþingis, að þetta ráðherraræði væri algjört? Fá mínum bæjardyrum séð er verið að auka ráðherraræði þó að maður geti vel skilið að það þurfi að hafa sveigjanleika í kerfinu, en þarna er verið að gefa ráðherra algert vald til að gera hvað sem honum sýnist.