144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:05]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir ræðu hans, hún var um margt áhugaverð eins og hv. þingmanns er von og vísa. Það eru nokkur atriði sem mig langar að eiga orðastað við hv. þingmann um.

Nú kom fram í máli hv. þingmanns að Alþingi geti alltaf ákvarðað með lögum hvar stofnun skuli staðsett og það sé því ekki sjálfgefið að ráðherra geti ákveðið hvar hún sé.

Mig langar að setja þetta í tengsl við annað lagafrumvarp sem er um almannatryggingar. Þar stendur einmitt til að fella ákvæðið um aðsetur Tryggingastofnunar úr lögunum og færa það til ráðherra að ákveða staðsetningu hennar.

Annars vegar höfum við þau lög sem við ræðum hér, þar sem 1. gr. hljóðar upp á að ráðherra kveði á um aðsetur stofnana nema á annan veg sé mælt í lögum, og hins vegar annað frumvarp, þar sem á að fella út ákvæði um aðsetur stofnana. Þegar það tvennt er haft í huga spyr ég hvort ekki sé skiljanlegt að áhyggjur vakni af því að í nafni sveigjanleika sé verið að ýta undir ráðherraræði og gera það auðveldara að illa ígrundaðar ákvarðanir, eða jafnvel geðþóttaákvarðanir, séu teknar eins og við urðum vitni að í fiskistofumálinu, að við séum í raun að auðvelda það að svona geti áfram gerst.