144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:09]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir svarið þó svo að ég sé kannski ekki alveg sammála honum, eins og gengur og gerist. En gott og vel.

Mig langar að nota seinna andsvarið til að koma aðeins inn á 8. gr. laganna. Í ræðu sinni kom hv. þingmaður réttilega inn á það að vald og ábyrgð tengjast og valdið tengist ábyrgð. Í því ljósi langar mig að ræða 8. gr., þ.e. að forsætisráðuneytið gefi stjórnvöldum ráð um túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað.

Ég spyr hvort hv. þingmaður sé ekkert hræddur um það að forsætisráðuneytið, sem er hluti af stjórnvöldum, standi stjórnvöldum of nærri til að geta gefið ráð, þar á meðal um sjálft sig. Er ekki hætt við því, ef þessu verður þannig fyrir komið, að það hreinlega dragi úr trausti almennings á stjórnvöldum vegna þess að þarna stendur valdið svo þétt?