144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:11]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir spurningu varðandi siðferðisviðmið og 8. gr. Ég ætla að fá að vitna hér í athugasemdir um 8. gr. í frumvarpinu. Þar segir:

„Meginhlutverk nefndarinnar hefur verið að stuðla að mótun siðferðilegra viðmiða í formi siðareglna, kynna slíkar reglur, efla umræðu um þær og veita ráð um túlkun þeirra.“

Það var talið að þar sem skipunartíminn væri á enda þá þyrfti ekki að halda áfram með starf nefndarinnar. Ég vil vitna í framsögumann, hv. þm. Ögmund Jónasson, á minnihlutaáliti; hann orðaði þetta réttilega, mjög lýsandi, á þann veg að þetta snerist um smíðisvinnuna en ekki smíðisgripina. Það finnst mér í raun og veru með áliti meiri hlutans vegna þess að þessi vinna heldur áfram í ráðuneytinu. Ef þú talar um utanaðkomandi aðila þá ber ráðuneytinu að hafa samráð við Ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis í þeim efnum.