144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:12]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér stjórnarráðsfrumvarpið svokallaða eða frumvarp til breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Ég vil byrja á því að þakka samnefndarmönnum mínum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir starfið að málinu milli umræðna og framsögumönnum nefndarálita fyrir kynningu þeirra á þeim hér við umræðuna um leið og ég hlýt að segja að það hafi verið óskynsamlegt af meiri hlutanum að afgreiða þetta mál út úr nefndinni og hingað inn í þingsalinn til 2. umr., því það er mitt mat að það eigi ekki erindi í 2. umr. á þessu vorþingi fyrir margra hluta sakir.

Stjórnarráðsfrumvarpið er það sem heitir á mæltu máli fiskistofumálið og má heita eitthvert mesta klúður þessa kjörtímabils, a.m.k. í stjórnsýslunni, og eru þó ófá dæmin eftir ríkisstjórnina til að nefna í því sambandi. Og þegar af þeirri ástæðu, vegna þess að það er afsprengi þess vonda máls, held ég að farsælast sé fyrir allt og alla að málið sé látið liggja vegna þess að uppruni þess er einfaldlega slæmur. Það á uppruna sinn í geðþóttapólitík, væntanlega ekki hæstv. ráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar, að líkindum hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem hefur haft einhvers konar forustu ef nota má það öfugmæli um vinnubrögðin í málinu fyrir því að fara ætti í þennan leiðangur sem tókst svo hrapallega til að það þurfti að tugta til ráðherrann sem með málið fór og hann að biðjast afsökunar á því og í raun og veru að draga hina upphaflegu ákvörðun til baka.

Það er þess vegna alveg rétt sem fram kemur hér hjá þingmönnum stjórnarliðsins við umræðuna að umsagnir um frumvarpið eru mjög litaðar af fiskistofumálinu svokallaða enda á málið uppruna sinn í því og það er ekki ástæða til að líta fram hjá umsögnunum eða líta á málið sjálft og reyna að leiða hjá sér þá þætti sem liggja því til grundvallar heldur er það þvert á móti einmitt ríkuleg ástæða fyrir því að málið á ekki að fara lengra á þessu þingi vegna þess að umsagnirnar og uppruni þess er allur litaður þessu sama máli. Vilji ríkisstjórnin sækja einhverjar breytingar á stjórnarráðslögunum þá er sjálfsagt að meiri hlutinn leggi fram slíkt þingmál en það á þá að eiga uppruna sinn í einhverju öðru en þeirri vondu ákvörðun sem nú hefur verið fallið frá að flytja Fiskistofu með manni og mús norður á Akureyri. Að því máli var þannig staðið að þótt það sé að vísu ekki einsdæmi fyrir sitjandi ríkisstjórn þá er það eitt af minnisstæðari dæmum um mál þar sem tókst að standa svo óhönduglega að verki að það skaðaði allt og alla sem nálægt því máli komu með einum eða öðrum hætti, forsætisráðherra auðvitað en auðvitað ekki síst þann sem í verkið var settur fyrir hann, hæstv. ráðherra Sigurð Inga Jóhannsson.

Ég tel að það séu efni til þess að fara yfir samskipti umboðsmanns við ráðuneytið og ráðherrann og upplýsingagjöf ráðherrans í þeim efnum og ræða sérstaklega því ekki gafst færi á því í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ef málið á að koma til 3. umr. þá mundi það kalla á slíka umfjöllun á milli 2. og 3. umr. því það er ákaflega mikilvægt fyrir þingið að fara vel yfir það með hvaða hætti ráðherrann og ráðuneytið upplýstu umboðsmann því umboðsmaður er auðvitað í því hlutverki fyrir þingið að fara með eftirlitið með framkvæmdarvaldinu og mikilvægt að þingið geri ríkar kröfur til ráðherrans og ráðuneytisins um upplýsingagjöfina þar, en auðvitað hefur ráðherrann beðist afsökunar á því hvernig að málinu var staðið og dregið í land með það allt saman enda meiddi það ekki bara bæði hann og forsætisráðherrann heldur auðvitað fyrst og fremst starfsfólk Fiskistofu. Blöskraði öllum landsmönnum hvernig farið var að því fólki sem þar vinnur með offorsi og fruntaskap, durtshætti vil ég leyfa mér að segja, virðulegur forseti, sem til einskis var. Sannarlega var það ekki til framdráttar því byggðarlagi sem menn þóttust vera að vinna gagn því að sú umræða sem þessu fylgdi var auðvitað ekki ósk þeirra sem búa á Akureyri, m.a. sem fylgdi þeirri tilraun ráðherrans til að gera málið eitthvað skárra með því að ætla að borga mönnum fyrir að fara. Það var umræða sem ég held að mörgum Akureyringi hafi sárnað, eðlilega, og hafi alls ekki gert ímyndina af orðspori Akureyrar sem á allt gott skilið í opinberri umræðu nokkurt einasta gagn.

Þannig verður ekki betur séð en að í raun og veru hafi allir þeir sem að þessu komu með einum eða öðrum hætti eða tengdust málinu skaðast af því af því að það var svo illa hugsað og svo illa framkvæmt sem mest má vera sem best sést af því að þegar ríkisstjórnin hefur rekist í þessu máli — það er auðvitað ekki hægt að draga fjöður yfir það að Sjálfstæðisflokkurinn er fullkomlega meðábyrgur í málinu. Þetta er stjórnarfrumvarp, það er samþykkt af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn Íslands til framlagningar sem slíkt á Alþingi Íslendinga og það er samþykkt af þingflokki Sjálfstæðisflokksins og þessi aðför að starfsfólki Fiskistofu er fyrir atbeina þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Það hefur enginn þingmanna Sjálfstæðisflokksins svo ég hafi heyrt hér í dag gert grein fyrir því að þeir hafi lagst gegn málinu í sínum þingflokki þegar það var þar til afgreiðslu. En hafi svo verið þá væri gott að fá það fram hér við umræðuna.

Það sést best hversu illa var að málinu staðið að eftir að ríkisstjórnin fór svona fram gagnvart starfsfólki Fiskistofu, gagnvart Akureyrarbæ, gagnvart stjórnsýslunni, gagnvart öllum réttum aðferðum í málinu, að til er á því ágætislausn sem nú er orðin og allir geta fellt sig við og hefði betur verið tekin í upphafi og sparað mörgum manni og margri fjölskyldunni miklar áhyggjur, þeirri stofnun sem í hlut átti verulegu tjóni fyrir nú utan alla þá tímasóun og orkusóun sem deilurnar um þetta mál, sárindi sem það vakti af ýmsum ástæðum hefur valdið og skapað. Það geta allir fellt sig við að höfuðstöðvar þessarar stofnunar geti verið annars staðar en í Reykjavík ef því fylgja ekki nauðungarflutningar á starfsfólki Fiskistofu. Það er kannski ein af ástæðunum fyrir því að þeim sem hafa fylgst með starfsemi Fiskistofu í gegnum árin kom þetta ekki síst á óvart. Við þekkjum það að að mörgu leyti ætti Fiskistofa að vera öðrum ríkisstofnunum til fyrirmyndar um það hvað hún hefur komið sér upp mörgum starfsstöðvum úti um landið og hefur stuðlað að því að skapa störf heima í héraði og út um landið enda starfsemin nátengd og samofin byggðum landsins. Þess vegna er býsna sérstakt að stofnun sem hafði staðið sig jafn vel í því verkefni skyldi síðan vera tekin með þessum hætti og reynt að knýja þá sem hér starfa og búa til að annaðhvort láta af þeim störfum sem þeir hafa helgað sig og menntað sig til eða flytjast með alla fjölskyldu sína landshorna á milli. Það voru auðvitað aðfarir sem öllum blöskruðu og sveið kannski sérstaklega sárt vegna þess að Fiskistofa hafði með slíkum ágætum staðið að því að vera um land allt, starfa um land allt.

Við í Samfylkingunni höfum haft ríkan skilning á því sjónarmiði sem verður vart við úti um landið að það sé mikilvægt að fólk sem býr annars staðar en í Reykjavík og utan höfuðborgarsvæðisins, á Austurlandi, Norðurlandi og Vesturlandi eigi að geta starfað við m.a. þau þekkingarstörf sem eru í stjórnsýslunni, í Stjórnarráðinu og ýmsum stofnunum ríkisins. Við mörkuðum á sínum tíma stefnu um störf án staðsetningar sem var kölluð svo, þ.e. að ríkisvaldið ætti að skipuleggja sig með þeim hætti að störfin sjálf væru ekki bundin við Reykjavík eða höfuðborgarsvæðið heldur væri hægt að sinna þeim þó að fólk byggi annars staðar. Ég held að í nútímatæknisamfélagi sé það sjálfsögð þróun og eitthvað sem ríkið á að vera í fararbroddi um að gera fólki kleift að starfa í stofnunum þar sem það býr og dreifa þannig opinberum störfum um landið en það á ekki að knýja fólk til nauðungarflutninga frá einu landshorni til annars, hvort sem það er frá Reykjavík til Akureyrar eða frá Akureyri til Reykjavíkur, því það hefur ekkert að gera með byggðarlagið sem verið er að flytja starfsemina til. Það er einfaldlega þessi aðferð að gera fólki og fjölskyldum það að velja milli þess að flytja eða starfa ekki lengur að því verkefni sem það hefur kannski menntað sig til, hefur helgað sig um skemmri eða lengri tíma og á oft og einatt hug þess og hjarta, það eru slíkir afarkostir að algerlega óþolandi er að menn skuli hafa leyft sér að fara fram með þessum hætti, einkum þegar aðrar og miklu betri lausnir eru til á þessu eins og sú sem nú er komin fram og ekki síður hin, störf án staðsetningar, sem ég held að við megum ganga miklu lengra í. Það er tiltölulega fátt sem kemur í veg fyrir það í svo fjölmörgum störfum að menn geti sinnt þeim þótt þeir séu ekki staddir á skrifstofunni í Reykjavík. Þeir hafa fjarskipti, þeir hafa myndvinnslu, þeir hafa tölvutækni og alla slíka hluti til að sinna slíkum störfum frá fleiri stöðum en höfuðstöðvunum sjálfum.

Annað sem auðvitað er ömurlegt að fylgjast með í þessum málarekstri er kannski líkt og sýndarleikurinn sem hér var leikinn í umhverfis- og samgöngunefnd í gærmorgun af formanni þeirrar nefndar sem hélt þar eins manns bardaga fyrir landsbyggðinni, ekki til að ná fram því máli sem hann var að flytja því allir vita að málið mun ekki ná hér fram heldur með einhverjum hætti til að ala á því að í landinu sé höfuðborgarsvæðið eða fólk á höfuðborgarsvæðinu einhvern veginn að níðast á landsbyggðinni og sé mótdrægt landsbyggðinni og sé andstætt hagsmunum landsbyggðarinnar og leiti sífellt tækifæra til að klekkja á þeim sem búa utan höfuðborgarsvæðisins, lífsafkomu þeirra eða möguleikum til að vera fullgildir þegnar í íslensku samfélagi.

Þessi leiðangur, einhver svona stríðshanski um að hér væri verið að fara í leiðangur um höfuðstöðvar ríkisstofnunar út á landsbyggðina og það væru vondu Reykvíkingarnir sem væru á móti því, hann er einmitt þessu sama marki brenndur. Auðvitað vita það allir í hjarta sér að málum er ekki þannig háttað á Íslandi að úti um landið búi fólk sem sé á móti þeim sem búa á höfuðborgarsvæðinu og í höfuðborginni sitji fólk helst á svikráðum við fólk á landsbyggðinni. Þetta er nú frekar lítið land og lítið samfélag og við þekkjumst hér frá einni strönd til annarrar, erum skyld, komum héðan og þaðan af landinu og í meginatriðum vill fólk á landsbyggðinni höfuðborginni vel og fólk í höfuðborginni vill landsbyggðinni vel. Það er þess vegna alveg sérlega ómerkilegt þegar svona pólitísk tækifærismennska eins og einatt verður vart við í framgöngu hæstv. forsætisráðherra verður til þess að menn reyni að búa til ágreining, skapa átök þar sem engin eru, spilla farsælli starfsemi eins og starfsemi Fiskistofu sem starfað hefur jöfnum höndum á höfuðborgarsvæðinu og út um landið gagngert til að ala á einhverri togstreitu á milli landsbyggðar og höfuðborgar, til að búa til átök og illindi þar á milli. Við Íslendingar þurfum síst á því að halda að fjölga deiluefnum okkar eða skapa meiri óvinafagnað í eigin röðum og síst af öllu um jafn tilhæfulausa og ómerkilega hluti eins og þá fjarstæðukenndu hugmynd sumra að fólk skiptist í flokka á Íslandi eftir því hvort það búi á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni og sé einhvern veginn á móti þeim sem búa á hinum staðnum. Það vita allir þeir sem hér búa og þekkja þetta samfélag að er ekki veruleiki þótt menn reyni einatt að slá pólitískar keilur í flugvallarmálum eða flutningi ríkisstofna eða öðrum slíkum tilbúnum átökum til að láta líta út fyrir að svo sé í einhverjum sérkennilegum ávinningi.

Í þriðja lagi er það ráðherraræðið sem veldur því að engin ástæða er til að þetta mál fái afgreiðslu á þessu vorþingi og ekkert sýnir það betur en fiskistofumálið að því miður erum við ekki þar stödd, þetta unga lýðveldi, að ráðherrum ríkisstjórnarinnar sé treystandi fyrir því valdi að geta flutt stofnanir landshluta á milli með sómasamlegum hætti. Fiskistofumálið er einmitt nýleg sönnun þess að þeim er ekki treystandi fyrir því valdi og Alþingi á ekki að láta það vald frá sér og þess vegna á ekki að ljúka þessari umræðu og samþykkja þetta mál.