144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni að megintilefni þessa frumvarps var 1. gr. þess, svokallað fiskistofuákvæði. Ég vil nú nefna í þessu fyrra andsvari mínu að það eru hins vegar með í málinu fjölmargir farþegar, ef svo má segja, ýmis önnur ákvæði sem nauðsynlegt er að fara vel yfir við umræðuna og ég mun gera í síðari ræðum mínum um frumvarpið.

En um stjórnsýslulögin er þetta að segja: Jú, það er sannarlega vörn í þeim fyrir borgara landsins og fyrir starfsfólk Stjórnarráðsins og stofnana þess. Þau gera ríkar kröfur til stjórnvalda en ég held að reynslan sýni okkur að það sé mikilvægt að Alþingi hafi um að segja líka. Við vorum að ræða í gær ráðstöfun á 5,3% aflaheimildanna til byggðatengdra aðgerða, strandveiða og annarra slíkra hluta. Um þann þátt kom inn frumvarp á síðasta vetri þar sem gert var ráð fyrir því að ráðherrann gæti bara fengið að ákveða það sjálfur. Niðurstaðan úr þeirri vinnu varð sú að atvinnuveganefnd gerði þá breytingu að ráðherrann fengi ekki ákvörðunarvaldið, hann fengi tillöguvaldið og kæmi með þingsályktunartillögu til þingsins, sem vissulega er skemmri meðferð en lagafrumvarpa eins og hér er um að ræða en þarf þó tvær umræður og umfjöllun í nefnd og hefur einhvern umbúnað og aðdraganda. Það er einmitt þannig sem á að búa um flutning á ríkisstofnunum. Þær þurfa að eiga aðdraganda og umbúnað. Það mætti til dæmis hugsa sér að slíkar heimildir væru sóttar með þingsályktun hverju sinni.