144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:37]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir svarið. Mig langar í seinna andsvari að ræða við hann um b-lið 10. gr. sem er ákvæði sem hefur kannski ekkert mjög mikið verið rætt hér í dag en það snýst um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en það segir í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Heimilt er, án þess að starf sé auglýst laust til umsóknar, að ákveða að starfsmaður sem er ráðinn ótímabundið til starfa flytjist um afmarkaðan tíma eða varanlega milli stjórnvalda enda liggi fyrir samþykki viðkomandi forstöðumanns fyrir flutningnum og starfsmannsins sjálfs.“

Í nefndaráliti minni hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kemur fram að rýmkun heimilda til flutnings starfsmanna sé til þess fallin að minnka gagnsæi við ákvarðanatöku og minni hlutinn bendir á að gagnsæi sé grundvöllur þess að almenningur geti veitt stjórnvöldum fullnægjandi aðhald. Nú hefur oft verið rætt að gagnsæi í launamálum svo ég nefni það sem dæmi hafi jákvæð áhrif og hjálpi til við réttindabaráttu kvenna og að þær sitji við sama borð og karlar í samfélaginu. Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að hann á sæti í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hvort þetta ákvæði sem getur leitt til minna gagnsæis hafi nokkuð verið rætt í nefndinni og metið hvort það geti haft einhver áhrif á stöðu kvenna og hvort nefndin hafi eitthvað pælt í því.