144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:45]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta andsvar. Ég held að við séum í meginatriðum sammála um það hvernig við viljum hafa þetta og eiginlega sammála um að svona eigi ekki að gera þetta, gefa ráðherrum vald til að færa stofnanir án þess að hafa samráð við nokkurn mann, þótt vissulega sé bent á að það séu lög sem þeir þurfi að fara eftir. Þetta mál á síðasta sumri sýnir á hverju nákvæmlega er hægt að eiga von þegar ráðherrar eru annars vegar og það segir okkur að herða þurfi frekar eftirlitshlutverk Alþingis og minnka ráðherraræðið. Það var kannski meginniðurstaðan og lærdómurinn sem mátti draga af rannsóknarskýrslu Alþingis.

Síðan er eitt sem maður veltir fyrir sér og það er um samráð. Þótt það komi fram að hafa eigi samráð við þá sem um ræðir er það bara ekki alltaf gert og það kom greinilega í ljós á síðasta ári. Þar var ekki haft neitt samráð. Þetta eru 70 starfsmenn sem fá tilkynningu um að það eigi að flytja þá norður á Akureyri. Og hvað er stofnun? Er hún bara borð og stólar? Nei, hún er líka manneskjur og þekking, það er gríðarleg þekking sem liggur að baki Fiskistofu og þarna er verið að setja stofnun algerlega upp í loft án nokkurs faglegs undirbúnings. Það eru líka börn á bak við þetta. Það er ekki oft talað um það. Það eru náttúrlega börn á bak við fólk sem vinnur hjá stofnunum. Þetta er fólk af holdi og blóði sem við þurfum að taka tillit til. Það var ekki gert og sá gjörningur sem átti sér stað var ótrúlegur og eitthvað sem maður vill alls ekki sjá. Auðvitað eigum við að setja upp girðingar sem hindra að þetta gerist.

Hvað varðar siðareglurnar langar mig að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um það að forsætisráðherra eða forsætisráðuneytið hafi það einhliða á sínu verksviði að setja siðareglur.